02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í C-deild Alþingistíðinda. (1316)

26. mál, sparisjóðir

Ráðherrann (H.H.):

Það er ekki ómaksins vert að fara að svara ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). En eg vil þó taka það fram, að það getur ekki komið til nokkurra mála, að undirbúa málið með því að leita álits þeirra manna, sem einmitt á að hafa eftirlit með um það, hvernig eftirlitinu skuli hagað.

Að þetta frumvarp yrði hindrun fyrir sparisjóðina, ef það yrði að lögum, er alveg öfugt. Það mundi einmitt auka mjög traustið á þeim og því verða til stórhagnaðar fyrir þá. Enda er ekki svo mikið til af peningum á markaðinum hér á landi, að örðugt sé að koma þeim út. Það ætti engum að verða skotaskuld úr því, að fá áreiðanlega menn til að taka fé að láni fyrir hæfilega rentu. Að einn sérstakur eftirlits maður mundi ekki vera vel kunnur gjaldþoli og efnum manna út um alt land, getur auðvitað verið satt. En vafasamt er, hvort árangurinn yrði betri af því að taka einhverja góðkunningja sparisjóðsstjóranna út um alt land sinn á hverjum stað. Slík »kunningja endurskoðun« hefir sína annmarka. Það er ekki aðalatriðið, að eftirlitsmenn séu þaulkunnugir út um alt land, heldur hitt, að þeir vilji fá réttar skýrslur og leiðrétta það, sem aflaga fer. Það er engin hætta á því, að ekki komi fljótt kvis á það, ef einhver sparisjóðsstjórnin þykir fara illa að ráði sínu á einhvern hátt. Þeir sem fé eiga í sjóðunum, mundu hlera slíkt og bera það til eftirlitsmanns. Jafnvel í stórum bönkum er vant að berast út um borg og bý, ef veitt eru stórlán upp á illar tryggingar, með getgátum um, hvers vegna bankastjórnin hafi gert það í þessu og þessu tilfelli. Það eru því allar líkur til, að ekki þurfi sérstaklegan kunnugleika á mönnum og veðgildi eigna út um alt land til þess að eftirlitsmaður fljótt verði áskynja, ef mikil brögð eru að brotum móti settum reglum. Og það eru jafnvel enn þá meiri líkur til þess, að ókunnugur maður mundi ganga ósleitilega fram í því að komast að hinu sanna í slíkum tilfellum, en að kunnugir menn í bygðarlaginu færu að troða illsakar við nágranna sína út úr slíkum orðrómi.