02.09.1913
Neðri deild: 49. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í C-deild Alþingistíðinda. (1329)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Ráðherrann (H.H.):

Það má ómögulega komast að nein hreppapólitík í þessu máli; málið er of mikilsvert til þess. Hér er um það að ræða, hvort að eigi að halda fram grundvallarreglum laganna, eða ekki. Það eru fleiri línur, en Siglufjarðarlínan, sem gætu gert kröfu til að verða teknar upp í fyrsta flokk. Og það er mikils varðandi, að ekki verði farið fram á það, að grundvallarreglur laganna séu brotnar, minsta kosti nú um hríð.

Um Siglufjarðarlínuna er líka það að segja, að þótt hún veiti nú talsverðar tekjur, þá er ekki víst að það verði lengi. Tekjurnar, sem línan veitir nú, eru aðallega vegna þess, að útlendir síldveiðamenn reka atvinnu sína á Siglufirði. Ef þeir hættu eða flyttu sig eitthvað burtu, mundi línan veita sáralitlar tekjur. Þá yrðu tekjurnar svo litlar, að engum mundi detta í hug, að gera Siglufjarðarlínuna að fyrsta flokks linu. Og enn þá hættulegra, heldur en að færa línur í 1. flokk, væri þó hitt, að landssjóður tæki að sér rekstur 3. flokks stöðva, eins og efri deild samþykti. Það gæti orðið honum þungur baggi með tímanum.