03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í C-deild Alþingistíðinda. (1351)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Bjarni Jónsson:

Þótt eg vilji margt gera fyrir háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.), er mér ómögulegt að fylgja honum að málum í þessu, því að eg get enga ástæðu séð til þess að hefta atvinnuveg Íslendinga á þessum svæðum. Ástæður hafa heldur engar verið færðar fram með þessu, því að þetta sem haft er eftir Bjarna Sæmundssyni, hlýtur annað hvort að vera rangt hermt eða misskilið. Ef þetta er öllum skaðlaust, þá er ekki til neins að vera að gera samþyktir um það, og ef skipin hafa engan hag af því að koma á þessi svæði, þá myndu þau alls ekki koma þangað.

Það hefir verið upplýst hér í deildinni, að síldin væri sá kynjakind, að verði hún vör við herpinót, þá leggi hún þegar á haf út; en sjái hún þó ekki sé nema sporð á hval, þá leggi hún þegar til lands og upp í fjöru.

En ef mönnum ber svo á um eðli þessa fisks, sem hér hefir orðið raun á, þá held eg að sé bezt að lofa síldinni að synda sinn eigin sjó, og leyfa henni að leggja út á haf þegar hún vill það, og upp í fjöru þegar hún vil það. En það er ekki rétt að meina þeim mönnum, sem hringnótaveiði nota, að veiða á neinum sérstökum bletti, en skylda þá til að veiða fyrir utan hann, ef þeir á annað borð vilja veiða á því svæði. Þessir menn, sem hafa stundað hringnótaveiði á þessum stað, hafa gert þeim héraðsmönnum, sem þar búa í kringum fjörðinn, stórmikið gagn, og það meðal annars af því, að þeir hafa gætt landhelginnar fyrir útlendum botnvörpungum. Er því in mesta fásinna og ranglæti að banna þessum mönnum að veiða þar með þeirri veiðiaðferð, sem þeir vilja nota.

En ef svo verður, sem mér leikur grunur á, að þetta frumv. fái fram að ganga — eins og reyndar flest þau málin, sem mest eru vanhugsuð — þá hugsa eg, að á þessu þingi eða næsta þingi, gæti menn fengið það samþykt, að menn sem búa við Faxaflóa, fái leyfi til þess að gera samþyktir um veiðiskap þar, svo þeir geti heimtað toll af öllum þeim fiski, sem þar yrði veiddur af mönnum úr öðrum landshlutum. Slík heimildarlög væri sjálfsagt að gefa út, ef þetta frumv. Verður samþykt. Væri það jafnsómasamlegt, að gefa út slik lög og þessi. Því auðvitað er það, að fiskur, sem dreginn er af Norðlendingi, getur ekki líka verið dreginn af t.d. manni, sem á heima á Vesturlandi.

Að samþykkja þessi lög er auk þess það sama sem að fara með atvinnugrein Íslendinga eins og hún væri eign útlendinga. Er eg því nú sem fyr algerlega á móti þessu frumv., eins og eg aldrei mun vera með þeim frumv., sem fara í þá átt að hefta atvinnufrelsi Íslendinga sjálfra.