03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í C-deild Alþingistíðinda. (1390)

95. mál, málskostnaður

Lárus H Bjarnason:

Eg verð strax að gera þá játningu, að eg er ekki eins vel undirbúinn og eg hefði viljað, en það verð eg að segja, að eg verð að taka í sama streng og hv. þm. Vestm. (J. M.), bæði af þeim ástæðum, sem hann nefndi og öðrum.

Það er öldungis rétt, að þessi breyting á gildandi tízku, er til þess fallin að gera skuldheimtumönnum auðveldara að ná skuldum sínum, en þetta mál hefir, eins og fleiri, tvær hliðar, og það hjálpar ekki að einblina á þá hliðina, sem veit að skuldheimtumönnum, heldur verður líka að líta á hina, sem veit að skuldunautum, og jafnvel öllum almenningi. Eg lít nú svo á, að í fyrsta lagi sé óþarft að setja lög um þetta, og það af því, að dómstólunum er þar ekki markaður bás að lögum. Þeir geta hækkað málkostnaðinn — mér liggur við að segja eftir vild — og þeir eru mikið hneigðari til þess nú, en fyrir mörgum árum. Í öðru lagi er það óheppilegt, að setja alveg ófrávíkjanlega reglu um slíkt, hvernig sem á stendur. Lífið er svo margbrotið, að fortakslausar reglur eiga ekki við öll tilfelli þess. Þessi ákvæði væru hæfileg fyrir þá sem geta borgað, en vilja það ekki, en þau eru hörð þar sem svo er ástatt að viljinn er meiri en getan.

Sérstaklega vil eg benda á þetta í sambandi við það, hversu öll réttargjöld eru hærri nú en áður var. Þau voru hækkuð mikið 1909, og enn fremur hafa allir málfærslumenn í Reykjavík myndað hring og ákveðið gjaldakrá fyrir störf sín með 25 kr. lágmarki fyrir undirrétti og 50 kr. fyrir yfirrétti. Eftir því ætti flutningur á máli út af fjórum krónum að kosta 75 kr. fyrir utan öll réttargjöld, sem í báðum réttum mundu ekki verða ofreiknuð eitthvað á þriðja tug, og eru þá komnar um hundrað krónur í málakostnað. Þetta er óhæfilegt, einkum fyrir þá sem lögsóttir eru fyrir — lítið tilefni.

Enn er það, að dómarar verða oft að dæma eftir vissum sönnunarefnum, sem ekki friða samvizku dómarans meira en svo. Eg skal t. d. nefna svo kallaðan partaeið. Úrslit mála geta sem sé stundum oltið á því, að annarhvor málsaðila vinni eið að framburði sinum. Slíkur framburður er af mörgum álitinn fremur óábyggilegt sönnunargagn, en dómarinn er þó eftir atvikum skyldur að dæma eftir því. Löggjöfin hefir á síðustu tímum fjölgað þeim tilfellum, þar sem má og eftir atvikum á að nota þessa aðferð, og á eg þar sérstaklega við lög um verzlunarbækur frá 1909. Í tortryggilegum tilfellum er hart fyrir dómarann að vera bundinn af beinhörðum lagabókstöfum.

Ekki mundi þetta frumvarp heldur verða til þess að auka frið í landinu. Miklu —fremur stuðla að því, að mönnum yrði lausara í hendi að beita málsóknum og ýta undir málaflutningsmenn að nota sér deilur manna.

Og það er efamál, hvort lög þessi mundu jafnvel — ekki verða til þess, að verka á móti tilgangi sínum að vissu leyti. Eg hygg sem sé, að það hafi meðfram vakað fyrir háttv. flutningsm. og nefndinni, að vinna að því að minka verzlunarskuldir. En ef þær eiga rót sína að rekja til fúsleika lánardrottins að meira eða minna leyti og vilja hans til þess að tryggja sér viðskiftamenn með skuldum, þá mundu lögin ekki draga úr þeirri viðleitni, þar sem lánardrottinn vissi sig enn tryggari en áður

Af öllum þessum ástæðum verð eg –þótt — eg hafi ekki haft nógan tíma til að veita þeim vel fyrir mér — að ráða háttv. deild til að fella þetta frumvarp. Að minsta koati eru þessar ástæður mér nógar til þess að vera móti því.