03.09.1913
Neðri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í C-deild Alþingistíðinda. (1408)

93. mál, hallærisvarnir

Lárus H. Bjarnason:

Eg er einn þeirra manna, sem játa, að hugmyndin, sem vakir fyrir formælendum þessa mála, sé fögur. En um það, að hve miklu leyti frumv. þetta sé nauðsynlegt og framkvæmanlegt — þar býst eg við að leiðirnar skilji. Eg verð að líta svo á, að lítil eða engin yfirvofandi hætta sé af því sem kallað er hallæri, sízt almenn hætta, jafnvel þó að eg verði að játa það fyrir fram, að eg hefi ekki á takteinum nákvænna skýringu á hugtakinu, og búist jafnvel við, að sitt vaki fyrir hverjum. Hins vegar skal eg játa, að hallæri getur borið að höndum, en þó sérstaklega í einum ef ekki eingöngu í einum landsfjórðungi, Norðlendingafjórðungi, og þá sérstaklega, ef ekki einvörðungu, vegna ísa. Þó mundi skortur ná á tímum ekki verða neitt til líka við það sem áður átti sér stað, af því að kringumstæður allar eru mjög breyttar frá því sem áður var.

Fyrst er nú það, að menn væru nú ólíkt fljótari að segja til þarfa sinna en áður — ekki að eins innanlands, heldur og til útlanda. Síminn hefir gert það að verkum, að menn geta nú undir eins og átlitið verður ískyggilegt, gert land. stjórninni viðvart, og landstjórnin getur strax gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að láta flytja forða frá útlöndum að landinu.

Annað er það, að samgöngurnar hafa mjög breyzt til batnaðar frá því sem áður var. Áður höfðu menn ekki önnur fartæki en léleg seglskip. Nú hafa menn gufuskip, og veitir þeim ólíkt hægara en fyrri fartækjunum að sæta færi að skríða inn á hafnirnar — jafnvel um vakir.

Þá mun undirrót hallæris oft hafa legið að nokkru leyti í sjálfráðum orsökum, og á eg þar sérstaklega við það, að ekki hafi verið gætt nógu mikillar varúðar um ásetning búfjár. Hallæri á mönnum mun venjulega hafa byrjað með felli á skepnum, en hann mun oftast að meiru eða minna leyti hafa stafað af fyrirhyggjuleysi. Þess konar fyrirhyggjuleysi er ekki jafn-mikið nú og áður var.

Löggjöfin er líka breytt frá því sem áður var að mörgu hér að lútandi. Nú er það þannig skylda sýslunefnda, er til vandræða horfir, að hefjast handa til þess að bæta úr skák, og sveitarstjórnirnar eiga góðan bakjarl þar sem landsstjórnin er, því að þó að henni væri ekki beinlinis skylt að veita fulltingi í þessu efni samkvæmt skrifuðum lögum, þá mundi landstjórnin gera það — hver sem hún væri.

Loks skal eg geta þess, að beri nú móti von hallæri að höndum, þá höfum vér betri tæki til að taka því en menn höfðu áður, og ekki sízt sá fjórðungurinn — Norðlendingafjórðungur — sem er í langmestri hættu. Vil eg í því sambandi sérstaklega benda til tvennra laga, kornforðabúrslaganna frá 1909 og laganna um heyforðabúr frá 1911. Sérstaklega eru það kornforðabúrin, sem eg hygg að koma mundu að beztum notum, ef hallæri bæri að höndum.

Enn vil eg benda á það, að Norðlendingafjórðungur á talsverða tryggingu í gjafasjóði Jóns heitins Sigurðssonar. Frumv. um hagkvæmara fyrirkomulag á skipulagsskrá sjóðsins er nú einmitt gengið eða að eins ógengið í í gegnum þingið.

En þó að eg verði að játa, að ekki sé ólíklegt að hallæri geti borið að höndum í Norðlendingafjórðungi, þá verð eg að álíta — ef byggja má spá um framtíð af fortíð — að hinir fjórðungarnir séu ekki í fyrirsjáanlegri hættu. En þó á gjaldið til hallærissjóðsins að verða skyldugjald á alla landsmenn, jafnt þau héruð, sem mega búast við því að hallæri beri þeim aldrei að höndum, nema þá að eitthvað alveg óvenjulegt komi fyrir, og þau héruð, sem mega ekki vera ugglaus um það. Og það verð eg að segja, að það er hart að leggja slíkt skyldugjald á menn í öllum héruðum landsins. Það eru auðvitað fögur orð, að menn skuli bera hver annars byrðar. Og það væri sannarlega gleðilegt ef menn gætu lifað eftir því lögmáli, en þeim mönnum er ekki ætlandi að lifa eftir því, sem eiga nóg með sig og sína. Og því miður eru mörg heimili til víðs vegar á landinu, sem mundu finna mjög til í kr. gjalds á hvern tvítugan karlmann og 60 aura gjalds á hvern tvítugan kvenmann, að því sleptu, að fasta árgjaldið, sem ætlast er til að landssjóður leggi til hallærissjóðsins, mundi verða tekið óbeinlínis úr vasa þjóðarinnar, einungis renna gegn um landssjóð sem miðil. Skattur inn, sem tekinn yrði beint úr vasa þjóðarinnar, mundi nema um 40 þús. kr. árlega, eftir því sem mér skilst áætlun nefndarinnar, enda hefir mér talist svo til, með því að fara lauslega yfir manntalið, að 48–50 þús. menn séu á landinu, sem komnir eru yfir tvítugt. Auk þess mundi það verða 20 þús. kr. sem landssjóður ætti að leggja til. Það má að vísu segja, að framlög þessi yrðu ekki eyðslufé, enda yrði það af framlögum héraðanna, sem ekki yrði brúkað, séreign þeirra. En þó að féð yrði ekki eyðslufé, þá væri það sama sem eytt fyrir þá einstaklinga, sem legðu það fram, því að þeir hefðu engan aðgang að því framar.

En auk agnhnúa, þeirra sem eg þegar hefi talið, þá er þó einn enn ótalinn og ekki sá minsti. Málið er ekki nægilega undirbúið. Það hefir t. d. ekki komið til umræðu á einum einasta þingmálafundi, að því er eg veit bezt til. Væri eg viss um að gjaldendum væri ljúft að inna gjaldið af hendi, þá mundi eg ekki vera á móti frumvarpinu. En eg tel það varhugavert og jafnvel óforsvaranlegt, að skella jafntilfinnanlegu gjaldi á þjóðina að henni fornspurðri. Eg segi óforsvaranlegt, þar sem þörfin er ekki brýnni en umræðurnar hafa lýst.

Enn er ein hlið á frumv., sem eg , man ekki til að hér hafi verið lýst, og það er, hvaða blæ það mundi kasta á okkur í augum útlendinga. Jú, — eg heyrði einhvern geta þess til, að það mundi auka lánstraust landsins. Eg held þvert á móti að það mundi miklu fremur spilla lánstrausti landsins en auka þau. Mér virðist ekki liggja fjarri að hugsa sér, að útlendingar, sem ekkert þekkja til þessa lands, nema þá nafnið eitt — og það er ekki beint glæsilegt — kynnu að álykta, að hér væri ekki alt með feldu, úr því að rokið væri til þess upp úr þurru og með öllu undirbúningslaust, að stofna hér hallærissjóð.

Af því sem nú hefi eg sagt, mundi eg helzt ljá atkvæði mitt rökstuddri dagakrá, eða jafnvel því, að málinu væri visað til stjórnarinnar — eða þá hvoru tveggju, því að það getur vei farið saman. Stjórnin ætti þá að leita undirtekta héraða- og sveitarstjórna undir frumvarpið. En ef dagskráin annað hvort kæmi ekki fram eða félli, þá mundi eg fremur greiða atkvæði með tillögum minni hlutans en meiri hlutans.