08.09.1913
Neðri deild: 54. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í C-deild Alþingistíðinda. (1471)

93. mál, hallærisvarnir

Eggert Pálsson:

Ég gæti fallið frá orðinu, því að háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) hefir komið fram með tillögu sem eg ætlaði að koma með, þá sem sé að visa þessu máli til stjórnarinnar og mun eg því auðvitað fylgja henni.

Eg efast ekki um, að þetta frumv. sé af góðum toga spunnið, og eg þykist vita. að sú hugsun sé allrík hjá þjóðinni, að eitthvað beri að gera í þessu efni, en á hina hliðina eru menn alls ekki búnir að gera sér það ljóst, hvaða leið eigi að fara. Samkvæmt frumvarpinu eru gjöldin til bjargráðasjóða lögð beint á hvern einstakling, en aftur á móti hafa komið fram brtill., þar sem ætlast er til að gjöldin sé lögð á menn óbeint, þannig að hreppsjóðir borgi fyrir alla, en hreppsnefndir ráði því svo sjálfar, hvernig þær nái gjaldinu aftur inn hjá einstaklingunum. Mér fyrir mitt leyti finst seinni leiðin vera enn þá ógeðfeldari en sú fyrri, þó að gjaldið sé lægra. Eg sé ekki, hvar það lendir, ef alt af eru lögð ný og ný gjöld á hreppasjóðina. Á þeim hvílir nú svo mikið, að naumast virðist á það bætandi. Og þó eru á þessu þingi á leiðinni mörg frumv., sem leggja þeim nýjar byrðar á herðar og skal eg í þeim efnum, auk þessa frv., benda á forðagæzlufrv. og sauðfjárbaðana frv., þar sem hreppasjóðum er ætlað að greiða. svo og svo mikið fé til eftirlits. Þetta er í sannleika varhugaverð braut og undarlegt, hvernig þingið getur ætlast til að hreppasjóðir geti greitt öll þessi gjöld, þar sem þeir hafa ekki annað fé í fórum sínum heldur en það, sem þeir ná inn með aukaútsvörunum.

Yfir höfuð álít eg, þegar um gjaldaálögur er að ræða, að það sé það minsta, sem þjóðin eigi rétt á, að fá að segja til, á hvern hátt hún vill láta leggja gjöldin á sig, og þann rétt ætti hún einnig að fá í þessu máli, enda hygg eg að málið hafi bezt af því sjálft, að fá að bíða til næsta þinga, jafnskiftar sem skoðanir manna eru á því, hver leiðin sé tiltækilegust. Eg skal játa, að það er vel farið, að það hefir komið fram nú, því að það þarf ítarlega að hugsa og ræða jafnyfirgripsmikið mál sem þetta, áður en það er afgreitt frá þinginu. En einmitt af því, hversu það er þýðingarmikið mál og áriðandi, að eðlilegur og góður grundvöllur sé lagður í byrjun, hygg eg að fari bezt, að ekki sé flanað að neinu.

Fyrir mitt leyti mun eg því greiða atkvæði með tillögu háttv. 2. þingm. G.-K., en nái hún ekki fram að ganga, greiði eg atkvæði með brtill. á þgskj. 766, sem gengur í þá átt, að heimila hreppsnefndum að greiða áminat gjald úr hreppssjóði, en skylda menn ekki til þess. Hin tillagan þykir mér þó viðfeldnari, að gefa þjóðinni umhugsunartíma, með því að hvor stefnan sem ofan á kann að verða, hvort heldur að leggja gjaldið á hvern einstakling eða greiða það úr hreppssjóði, þá hlýtur hér að vera að ræða um tilfinnanlegan skatt, sem þjóðin á heimting á að segja álit sitt um áður en hann sé lögleiddur.