12.07.1913
Efri deild: 7. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

39. mál, skipun læknishéraða

Guðmundur Björnsson:

Jeg hugsaði ekki, að jeg þyrfti að tala frekar um þetta, á þessu stigi málsins.

En það var eitt atriði í ræðu háttv. flm. (G. G.) er ekki má láta óátalið; það var um fækkun læknanna — eða skortinn á þeim.

Alt hefur sínar orsakir, og vilji maður ráða bót á einhverju, þá verður að finna orsökina.

Það verður því að leita að orsökinni að læknaskortinum.

Jeg hef athugað þetta mál, og get sagt það með vissu, að ein höfuðástæðan fyrir læknaskortinum er fjölgun læknahjeraðanna.

Hjeruðin eru bútuð sundur í einlæga smá skika, svo að þau verða altof lítil, og ólífvænleg fyrir nokkurn mann. Þetta gerir það að verkum, að ungir menn fælast þennan atvinnuveg.

Sjálfsagt er það, að íhuga mál þetta rækilega frá öllum hliðum.

Jeg tel því gott að skipa nefnd í málið bæði til að íhuga hjeraðaskipunina, og eins það, hvernig ráðlegast sje, að bæta úr læknaskortinum, svo að læknar fáist í öll hjeruðin.