22.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Guðmundur Björnsson:

Jeg þakka háttv. flutningsm. fyrir frumv.

Þetta er gott nýmæli!

Jeg bað mjer hljóðs, til þess að benda á eitt atriði, sem jeg ekki sá í nefndarálitinu.

Frumv. miðar til þess, að við eignumst skip til þess, að verja landhelgina. Náttúrlega er mjög mikil þörf á því, en hinsvegar verða menn að gera sjer ljóst, hversu kostnaðurinn er mikill.

Þeir, sem mest hugsa um þetta, segja, að ekki þurfi stærra skip en venjulegann togara eða hvalabát. Þau mundu koma okkur að fullum notum. Þetta hef jeg heyrt sjómenn segja, sem vit hafa á, að mundi vera heppilegast.

En þó skipið sje ekki stærra, þá er kostnaðurinn mikill.

Hefur háttv. nefnd athugað, hvað úthaldskostnaðurinn yrði á ári? Kostnaðinn við að kaupa skipið sjálft, tel jeg lítinn í þessu sambandi.

En úthaldskostnaðurinn er mikill. Jeg hygg, að háttv. nefnd gæti fengið allýtarlegar upplýsingar viðvíkjandi því, hversu mikill sá kostnaður er, ef að hún sneri sjer til útgerðarmanna hjer. Þeir ættu að vita mikið um það, og geta gefið góðar upplýsingar og bendingar. Mundi þá koma í Ijós, að það er minstur kostnaðurinn, að eignast skipið, meiri að halda því úti.

Jeg vildi því biðja háttv. nefnd, að athuga þetta.

En þarf ekki landið að eignast skip til annara nota?

Landið þarf að koma sjer upp vitum. Það er varið miklu fje til þess að flytja til þeirra efni og annað, er þeir þurfa. Einn maður hefur á hendi umsjónina, og hann þarf að ferðast um landið til þess, og ferðir hans eru kostnaðarsamar. Mun nú ekki reka að því, að landið kaupi skip og hafi það í förum kringum landið til flutninga.

Sparast mundi mikið fje til vitanna, ef slíkt skip væri til, og ferðakostnaður ýmissa umsjónarmanna.

En það er ýmislegt fleira, sem landið þarf að flytja.

Við þurfum að flytja flutning til byggingar brauta og vega.

Eins og nú hagar, er oft ekki hægt að fá þennan flutning fluttan á land þar sem haganlegast er. Það er verið að gera brú á Hverfisfljót í Skaftafellssýslu. Heppilegast hefði verið, að skipa brúarefninu upp þar í nánd á sandana, en það fjekst ekki. Þessum flutning var skipað í land í Vík í Mýrdal. Kunnugir menn þaðan að austan hafa sagt mjer, að flutningskostnaðurinn til brúarinnar hafi aukist að minsta kosti um 1000 kr. fyrir þetta.

Sama er að segja um símann. Það þarf að leggja nýja sima, flytja nýja staura o. fl.

Allur þessi flutningur á verkefni, verkfærum og fólki, er miklu dýrari, en vera mundi, ef landið ætti sjálft skip.

Og það mætti sameina flutninga og eftirlit.

Ef alt er vel íhugað, þá mundi borga sig, að kaupa þetta skip strax. Úthaldskostnaðurinn yrði ekki svo mikill, að það ekki margborgaði sig, þegar gætt er að flutningaþörfinni.

Þetta vildi jeg biðja háttv. nefnd að athuga, einkum þó það, hvort ekki mætti nota þetta eftirlitsskip til annars, og hvort ekki væri hagnaður, að kaupa skipið strax.