19.07.1913
Efri deild: 11. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

28. mál, ábyrgðarfélög

Eiríkur Briem:

Orð háttv. umboðsmanns ráðherra (Kl. J.) gáfu tilefni til þess, að jeg bið mjer hljóðs. Afstaða mín til þessa máls er sú, að jeg er mjög hikandi í því, hvort það eigi að ganga fram. Háttv. umboðamaður ráðherra gat þess, að gengi málið fram, mundi slysaábyrgð hjer á landi alveg hætta. Það er og önnur tegund vátryggingar, sem hingað til hefur verið lítið notuð hjer á landi, jeg á við trygging á vörum fyrir sjóskaða. Það er hætt við, að þessi fjelög, sem enn hafa litla festu fengið hjer í landi, dragi sig til baka, ef frv. verður samþykt með ströngum tryggingarákvæðum, og tel jeg það miður farið. Brtill. um, að ákvæði laganna skuli ekki ná til þeirra fjelaga, sem hjer hafa starfað full 10 ár, mun ekki ná til þessara fjelaga; þau munu ekki hafa starfað hjer svo lengi; væri það þó illa farið, ef þau hættu að starfa hjer, Það hefur mest verið talað um brunabótafjelögin. Jeg hygg, að þau brunabótafjelög, sem nú starfa hjer, mundu ekki setja mjög fyrir sig ákvæði frv. Ýms þeirra hafa nú þegar umboðsmenn hjer á landi. Ef málið á fram að ganga, finn jeg ekki ástæðu til að gera mun á fjelögunum, að öðru leyti, en ef þau eru stofnuð með sjerstökum lagaboðum.