21.07.1913
Efri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

37. mál, hagstofa Íslands

Eiríkur Briem:

Eins og háttv. umboðsmaður ráðherra (Kl. J.) tók fram, hefur mál þetta yfirhöfuð fengið góðan byr í þinginu. Það sem mest áherzla hefur verið lögð á, er, að nú sje stigið spor í þá átt, að landshagsskýrslurnar fáist fljótt. En jeg bið menn að gæta þess, að það er ekki svo þýðingarmikið, að þær birtist sem fyrst, það er meira gaman en gagn að því að jafnaði. Aðalþýðing hagskýrsla er sú. að þær gefi meðaltalsyfirlit yfir nokkuð langan tíma. Svo er annað atriði, sem hjer hefur svo afarmikið að segja, og það er, að skýrslurnar sjeu rjettar. Landshagsskýrslurnar eru svipuð leiðbeining fyrir þann, sem vill gera sjer grein fyrir hag landsins, eins og sjókortið fyrir sjómanninn; sje það ónákvæmt eða rangt, verður það villandi í stað þess að gefa leiðbeiningu, og eins er með hagskýrslurnar. Það hefur ekki verið lögð næg áherzla á það, að hagskýrslurnar þurfa að vera rjettar og nákvæmar, ef þær eiga að geta komið að fullu haldi. Það sem gerir það, að jeg er máli þessu fylgjandi, er, að jeg vona, að vjer fáum rjettari skýrslur, þegar að þeim vinnur maður eða menn, sem hafa skýrslugerðina fyrir embættisstarf. Því verður ekki neitað, að ýmsar af þeim hagskýrslum, sem nú koma út í landshagsskýrslunum, eru ekki vel ábyggilegar eða fullkomnar. Við 1. málsgrein 2. gr. hefur h. n. gert breyting, sem hún hefur líklega talið aðeins orðabreyting, en sem kynni að mega skoða sem töluvert meira en orðabreyting. Í stjórnarfrv. stóð, að hagstofan ætti að afla sannfróðleiks um ýms atriði landshagsins þau, sem upp eru talin í frv. Þessu hefur h. n. breytt í rannsaka. Jeg hygg, að nefndin hafi þó ekki viljað draga úr því, að vjer fengjum sannfróðleik um landshaginn, því að það er einmitt höfuðatriðið, að geta orðið sannfróður um hann. Eitt af því, sem hagstofan gæti unnið að, er að búa út fyrir stjórnina spurningar um ýmislegt, sem landshaginn snertir; og má vænta þess, að hún stæði betur að vígi, en stjórnin sjálf með að gera þær þannig úr garði, að sem hægast væri að svara þeim og sem bezt trygging fengin fyrir, að svörin sjeu sem nákvæmust og rjettust, og úr þeim undirstöðuskýrslum á svo hagstofan að vinna. Það ætti ekki að geta komið fyrir, að hagstofan sendi út fyrirspurnir um það, sem ekki er unt að svara, svo í nokkru lagi sje, eins og t. d., þegar hreppstjórum var upp á lagt, að gefa skýrslu um stærð ræktaðs lands í hreppi sínum. Ef þessar skýrslur hefðu átt að geta orðið áreiðanlegar, hefði þurft að mæla upp alt ræktað land, en það hefði sjálfsagt kostað tugi þúsunda króna, að framkvæma það verk; og því hefði fyrst þurft að gera ráðstafanir til þess, að landið væri mælt, áður en skýrslurnar voru heimtaðar. Jeg ítreka það enn, að aðalatriðið er, að hagskýrslurnar veiti oss sannan fróðleik.