22.07.1913
Efri deild: 13. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Sigurður Stefánsson:

Jeg bjóst ekki við, að þurfa að halda svörum uppi fyrir þetta frv. nú við þessa umræðu. Jeg vonaði, að það næði að ganga út úr deildinni.

Það er rjett, sem háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. J.) tók fram, að það fje, er sjóð þennan á að mynda með, eru ekki vissar tekjur, er hægt er á að byggja. Það er ekki komið úr vasa landsmanna í tollum og sköttum. Meðal annars af þessu bjóst jeg eigi við því, á seinasta stigi málsins, að þurfa að halda svörum uppi fyrir þessu landssjóðstillagi, sem er svo sára litið meir, en jeg hef þegar gert. Enn bendi jeg á, að háttv. deild hefur verið. nefndinni og flutningsmanni sammála um, að hjer þyrfti eitthvað að gera. Og þegar þess er nú gætt, að frekir 3/4 af útfluttum afrekstri atvinnuveganna. á Íslandi eru af sjávarútveginum, en ekki nema tæpur 1/4 af landbúnaðinum, sem stórfje er árlega veitt til, þykir mjer líklegt, að þingið sjái ekki eftir þessu litla fje, sem sem hjer er um að ræða, til að vernda þenna aðalatvinnuveg landsins frá háska og stórtjóni. Mjer dettur ekki í hug að gera litið úr landbúnaðinum, nje telja eftir það fje, sem til hans er veitt. Jeg heyri það oft hjá kjósendum mínum, að jeg dragi taum hans um of, móts við sjávarútveginn. En sjávarútvegurinn er landssjóði arðsamari en landbúnaðurinn, því getur enginn neitað. Það er því heilög skylda þingsins að efla og vernda þenna atvinnuveg. Háttv. 3. kgk. þm. (Stgr. J.) taldi upp ýmsa sjóði, er fje væri veitt til á fjárlögunum, og þótti þingið þar komið inn á viðsjárverða braut, og það er vitanlegt, að þessir sjóðir eru dregnir undan stjórn þingsins, og það getur verið varhugavert að gera mikið að þessu, einkum þegar um stóra sjóði er að ræða. En hann gleymdi einum sjóðnum, þegar hann var að telja upp þessa sjóði. Árið 1900 var tekið úr landssjóði ekki 5 þús. kr., heldur nær því 145 þús. kr. til eflingar landbúnaði. Jeg á hjer við Ræktunarsjóðinn, sem það ár var stofnaður. Þá var það ákveðið, að andvirði seldra þjóðjarða skyldi ganga til hans. Og það var ekki látið nægja, að taka andvirði þeirra jarða, er seldust eftir 1900, heldur var tekið andvirði þeirra jarða, er áður voru seldar eða samtals um 145 þús. kr., mörgum þótti þingið þá alldjarftækt í þessum efnum. En jeg álit, að þetta hafi orðið landbúnaðinum til eflingar og styrktar. Jeg þekki ekki dæmi þess úr þingsögunni, að nokkuð svipaðar tillögur hafi komið fram sjávarútvegnum til eflingar, nema helzt þetta frumvarp, sem fer fram á, að verja sektarfjenu, er landssjóður fær fyrir ólöglegar veiðar, eða rjettara sagt 2/3 af því, — og svo að bæta við úr landssjóði 5 þús. kr. tillagi. Þetta frumv. gengur svo miklu skemra en Ræktunarsjóðslögin, að það er varla samanberandi. Það fer ekki fram á það, að taka alt það fje, sem komið hefur í sektum fyrir ólöglegar veiðar í landssjóð frá því fyrsta, heldur það, sem hjer eftir kann að koma — og að eins 2/3 hluta þess, að við bættu þessu 5 þús. kr. tillagi. Hjer er því far ið miklu varlegar, en þá var gert. Þetta stafar af því, að jeg álit fjárhag landssjóðs þannig farið, að hann sje ekki fær um að snara nú út slíkri upphæð.

Aðalspurningin í þessu máli er auðvitað þessi: Er þörf á þessu frumvarpi ? Er þörf á þeim undirbúningi undir auknar landhelgisvarnir, sem það fer fram á ? Jeg hika ekki við að kveða já við henni. Við höfum tölurnar í landshagsskýrslunum, sem jeg hef nefnt, þær segja oss frá því, hve hagur landssjóðsins er ákaflega mikið kominn undir vexti og viðgangi sjávarútvegsins. En landshagsskýrslurnar segja oss ekki frá öðru, sem nú varðar enda mestu um þetta mál; þær segja oss ekki frá þeim hundruðum já þúsundum manna, sem árlega bíða stórkostlegt atvinnu- og eignatjón af því, hve landhelgisvörnin er slælega rekin. Mikill hluti sjómanna vorra gengur árlega mánuðum saman atvinnulaus, af því að fiskur gengur ekki á grunnmiðin. En þegar svo fiskurinn gengur inn fyrir landhelgislínuna, og sjómennirnir hlaða báta sína oft að kalla upp í landsteinum, þá koma útlendir botnvörpungar á miðin, sem að guðs og manna lögum eru landsins eign, og gersópa miðin að fiski og veiðarfærum fyrir augunum á sjómönnum vorum; þeir mega horfa upp á, að björginni sje rænt frá þeim og sárþurfandi heimilum þeirra, og geta ekkert aðhafzt. Hjer er því brýn þörf að hefjast handa. Jeg verð að segja, að það sem mjer þykir mest ábótavant við frumvarpið, er það, hve tillag úr landssjóði er lítið. Jeg get skilið, að margir hefðu talið sjálfsagt, að það væri ekki 5 þúsund krónur, heldur 50 sinnum 5 þúsund kr., og þegar væri byrjað á verklegum framkvæmdum til að bæta úr þessu voðaböli, en á því eru nú engin tök, þó ekki væri af öðru en því, að málið vantar allan undirbúning.

Við sem lifum mitt á meðal alþýðunnar og erum daglegir sjónarvottar að kjörum sjómannanna, við heyrum meira en nóg af kvörtunum sjómannanna, og við vitum, að það er á fullum rökum bygt, þegar þeir kvarta um erfiðan hag. Það væri auðgert að safna árlega fjölda af eiðfestum skýrslum um yfirgang útlendra sjómanna hjer við land, um það, hvernig þeir spilla bátflakinu, og leiða fátækt og skort yfir þá, sem af því eiga að lifa. Og hvað hefur svo þingið gert til að ráða bætur á þessu böli. Eiginlega ekki neitt. Það hefur að vísu stofnað fiskiveiðasjóð til eflingar sjávarútveginum; en ekki hefur hann orðið landhelgisvörninni að neinu liði. Mjer þykir þessi brtill. hv. 3. og 6. kgk. þm., sem fer fram á að fella burt úr frv. þetta 5 þúsund kr. tillag úr landssjóði, því undarlegri, þar sem jeg veit, að báðir h. flutn.m. eru sjávarútvegnum hlyntir, og líka sjálfu frv.

Það er farið fram á þetta árlega 5000 kr. tillag úr landssjóði, af því að, eins og kunnugt er, gengur 1/3 af sektunum fyrir landhelgisbrot nú í fiskiveiðasjóðinn. Jeg og nefndin höfum ekki viljað leggja til, að þessu væri breytt. Ef allar sektirnar hefðu getað runnið í landhelgissjóðinn, þá hefðum við að líkindum ekki farið að ásælast landssjóð, ef ásælni á að kalla það. Langeðlilegast hefði verið, að landhelgis sjóður hefði fengið allar sektirnar, eða með öðrum orðum miklu meira fje, en hjer er ætlazt til, að landssjóður leggi fram. Jeg get lýst því yfir fyrir nefndarinnar hönd, að hún heldur fast við frv. og sjer ekki ástæðu til að fallast á brtill.

Hjer er ekki farið fram á mikið, því miður getum við ekki stigið stórt spor. Hjer er að eins verið að búa í haginn fyrir það, að vjer getum sjálfir tekið þátt í því, áður en langt um líður, að hefta yfirgang erlendra sjómanna. Þessar 5000 kr. geta, þó lítið sje, flýtt nokkuð fyrir því, að vjer verðum færir um að taka upp landhelgisvörnina sjálfir. Jeg gef ekki mikið fyrir alt þetta tal um, hvað áríðandi það sje, að fylgja föstum principum, ekki sízt, þegar jeg sje, hvernig principin eru svo brotin, að segja má dögum oftar. Það hefur verið talað um það, að hættulegt væri að búta landssjóð sundur, leggja á hann frambúðarkvaðir og draga hverja upphæðina á fætur annari undan áhrifum löggjafarvaldsins. Þetta getur verið rjett og ekki rjett, það fer eftir atvikum. Ef landssjóður gæti lagt fram í einu alt, sem hjer þarf, þá mundi hafa verið farið fram á, að hann gerði það, og gerði það strax. En nú sje jeg ekki betur, en honum sje það ofvaxið í bráð, og því var hin leiðin valin. H. 3. kgk. (Stgr. J.) sagði, að það drægi ekki úr aðaltilgangi frv., þótt 5000 kr. tillagið úr landssjóði væri látið falla burt, það munaði ekki mikið um það. Jeg segi aftur á móti, og þykist hafa rjett fyrir mjer, að það dragi mikið úr honum. Við vitum ekki, hvað sektirnar verða miklar framvegis; þær geta minkað, og þá er því meiri ástæða fyrir landssjóð að hlaupa undir bagga, og tryggilegast, að hann geri það þegar frá upphafi.

Nú heyrast raddir um það, að koma megi landhelgisvörninni fyrir á ódýrari hátt en hingað til. Það er víst, að áhugi landsmanna á vörninni mun vaga, er þeir sjá, að hana má framkvæma fyrir minna fje, en menn hafa gert sjer í hugarlund hingað til. Það getur því orðið úr framkvæmdum fyr en varir, og þá er æskilegt, að eiga sem rífastan landhelgissjóð til taks. H. 3. kgk. (Stgr. J.) fanst þingið með þessu gefa sjálfu sjer nokkurs konar vantraustsyfirlýsingu, það væri, eins og það treysti sjer ekki til að fara hyggilega með landssjóðs fje, og sæi ekki annað úrræði, en að draga nokkuð af því undan yfirráðum þingsins og stinga því í söfnunarbauk. Jeg játa það, að jeg hef sjeð sumar fjárveitingar, sem jeg er sannfærður um að eru miklu gagnsminni en þessi, meira að segja: jeg þykist hafa sjeð fjárveitingar, sem gert hafa beint ógagn. Jeg hef sjeð þær fjárveitingar hjer á þingi, sem jeg vildi ekki hafa þurft að hafa vitneskju um. En þrátt fyrir þetta er engin ástæða til að bera yfirleitt vantraust til fjárveitingarvaldsins. Tillaga vor er ekki af slíku sprottin, heldur af hinu, að við töldum auðveldara, eins og fjárhagnum er háttað, að greiða smærri upphæðir, smátt og smátt, en eina stóra upphæð í einu. Jeg er viss um það, að enginn kjósandi á öllu landinu mundi ámæla þinginu fyrir það, þótt það legði fram 5000 kr. á ári, í því skyni, að bjarga öðrum aðalatvinnuveg landsins úr voða. Það stingi í stúf, ef þingið færi nú að neita um þessa smáupphæð, en hefur áður lagt fram af fúsum vilja tugi þúsunda króna til ýmissa fyrirtækja, og það sumra tvísýnna. Það er ekki langt á að minnast, að það veitti 400,000 kr. til hafnargerðar hjer í Reykjavik. Jeg lasta þetta ekki. En ætli það verði þó sjerlega mikið með höfnina að gera, ef sjávarútvegur mikils hluta landsmanna er ekki verndaður gegn bráðri eyðileggingu? Það sjer annars ekki á, að allir Reykjavíkurbúar meti það mjög mikils, að landssjóður hljóp ritlega undir bagga með þeim við hafnargerðina, ef það er satt, sem sagt er, að öll Hafnargata, höfuð-kaupmannagatan, vilji ekki leggja fram einn eyri til hins innlenda eimskipafjelags; það lítur út fyrir, að þeim herrum, sem þar búa, þyki sælla að þiggja en gefa. Einstakir hreppar hafa heitið 1000 kr. til eimskipakaupanna, og fátækir sjómenn hafa lagt fram sinn skerf. Jeg er hræddur um, að öllum þessum þyki þinginu nokkuð mislagðar hendur, ef það synjar um fá þúsund krónur til að vernda eign og atvinnu sjómannalýðsins, en kastar út hundruð þúsunda króna, til að hækka í verði eignir auðugra kaupmanna. Jeg segi ekkert um það, hvort þetta er í sjálfu sjer rangt eða ekki, en jeg þykist sjá fyrir dóm þjóðarinnar.

Mjer hefur stundum verið brugðið um, að jeg hirti lítið um vilja kjósenda minna. Það er satt: Jeg spyr sjálfan mig fyrst og fremst eftir því í hverju máli, hvað satt sje og rjett, og eftir því reyni jeg svo að fara, án tillits til þess, hvort það muni afla mjer vinsældar hjá kjósendum mínum, eða baka mjer óvinsæld hjá þeim. Eins geri jeg nú. En jeg hef sjeð og heyrt svo mikið af atvinnutjóni og þar af leiðandi bágindum sjómannanna, sem stafar af yfirgangi útlendra sjómanna, að jeg hef talið mjer skylt að bera hjer fram mál þeirra, og fylgja því eftir mætti. Kvein þeirra og soltinna barna þeirra og kvenna, hafa eflaust borizt til eyrna drottins Zebaots á hæðum, þó þau hafi máske ekki náð eyrum sumra þeirra, sem sitja við alsnægtir, inni í hlýjum og notalegum stofum hjer í Reykjavík.