22.07.1913
Efri deild: 13. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Steingrímur Jónsson:

Jeg held, að brtill. á þgskj. 137 hefði ekki þurft að gefa tilefni til annarar eins ræðu og þeirrar, sem h. þm. Ísfjk. (S. St.) hjelt áðan. Jeg skal játa það, að ræðan var skemtileg, og jeg er í mörgu samdóma h. þm. (S. St.). H. þm. (S. St.) sagðist ekki hafa búizt við, að umræður þyrftu að hefjast um málið nú. Það hefur eflaust komið til af því, að h. þm. (S. St.) hefur ekki munað eftir því, að við 2. umr. ráðgerði jeg að koma með brtill. þá, sem nú er komin fram, og sem:gaf h. þm. (S. St.) tilefni til að sýna ræðusnild sína. Eins og h. 6. kgk. (G. B.) tók fram, miðaði h. þm. (S. St.) hlutfallið milli afurða landbúnaðar og sjávarútvegs auðsjáanlega við útflutninginn einan; en ekki við afurðirnar í heild sinni, en það vita allir, að á slíkum samanburði verður lítið bygt.

Það var satt, að eg gat ekki beinlinis Ræktunarsjóðsins. En hins gat jeg, að það hefði ekki einungis verið bundið nokkuð af árlegum tekjum landssjóðs, og tekið undan áhrifum alþingis, heldur væri líka allálitleg fúlga af viðlagasjóði dregin undan áhrifum þingsins og runnin í Fiskiveiðaajóð og aðra sjóði. H. þm. (S. St.) sagði, að það hefði verið miklu meiri ástæða til að finna það að frv., að það færi fram á of lítið tillag til landhelgissjóðsins, en hitt, að það gerði ofmiklar kröfur. Það er satt, hjer er í raun og veru farið fram á of lítið; og jeg skyldi ekki hika við að greiða atkvæði með mun hærri upphæð, ef jeg hefði nokkra von um, að bráðlega ætti að fara að nota hana. Þessar 5000 kr. eru hvorki heilt nje hálft.

H. þm. (S. St.) var nokkuð stórorður um, hvílíkur voði sjómönnum væri búinn af yfirgangi útlendinga. Ef það ætti að skilja þau orð h. þm. (S. St.) alveg bókstaflega, hlytu menn að líta svo á, að sjávarútvegurinn væri að fara í hundana sökum þessa yfirgangs, og þá væri sjóðsstofnun sú, sem frv. gerir ráð fyrir, allra mesta humbug. Til allrar hamingju er þetta nú ekki rjett hjá h. þm. (S. St.), að svona langt sje komið. Yfir höfuð fanst mjer sá kafli ræðu h. þm. (S. S.), sem um þetta fjallaði, of stórorður, of óvarkár. Þetta má þó engan veginn skilja svo, að jeg vilji gera lítið úr yfirgangi útlendra sjómanna eða draga úr því, að reynt sje að hefta hann, síður en svo, en það spillir og villir í hverju máli, að fara út í öfgar.

Jeg veit, að h. þm. (S. St.) þekkir enn betur til sjómannanna en jeg, þó jeg búi líka við sjó, þar sem hann er í einu hinu mesta bátaútvegsplássi landsins, og það er ekki nema eðlilegt og honum til sæmdar, þó honum hafi hitnað, þegar hann hugsaði til bjargarskortsins í kjördæmi hans síðasta vetur, og í þann reikning ætla jeg að skrifa stóru orðin hans. H. þm. (S. St.) játaði það, að hann vildi taka þessar krónur undan yfirráðum þingsins, því hann treysti því ekki meira en svo til að fara skynsamlega með þær. Þannig sagði hann, að sín 28 ára þingreynsla væri. Þetta er næsta sorgleg játning. Jeg er enn ungur þingmaður, en það vona jeg, að hamingjan gefi, að ef það á fyrir mjer að liggja að sitja jafnlengi á þingi og h. þm. (S. St.) hefur gert, að jeg þá þurfi eigi að gera sömu játningu, sem hann gerði nú.

H. þm. (S. St.) talaði um princip okkar og fanst litið um. Jeg kannast fyllilega við það, að jeg vil fylgja principum; þannig vil jeg, að þingið geri sem minst að því, að binda hendur sínar um langan tíma,

það getur rekið að því, að það neyðist til að slita þau bönd og rjúfa þær skuldbindingar sínar. En slíkt má ekki eiga sjer stað; þingið verður fullkomlega að standa við það, sem það hefur einusinni gert. Það má víst með sanni segja, að alt of litið sje fylgt princípum í fjármálapólitík vorri, og ætli hin sorglega reynsla hv. þm. (S. St.) stafi ekki að miklu leyti af því. Það er því ekki rjett að vita það, þótt einhverjir vilji koma meiri festu á meðferð fjármálanna, fylgja nokkurnveginn föstum princípum í þeim málum.