04.08.1913
Efri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

32. mál, réttargangsmátinn við undirréttina á Íslandi, viðauki

Steingrímur Jónsson, framsögumaður meiri hlutans:

Þetta litla frv. er borið fram af stjórninni fyrir hönd málaflutningsmannafjelags Íslands og eftir tilmælum þess. Nefndin í málinu hefur ekki getað orðið sammála. Jeg og háttv. 1. kgk. þm. (J. H.) álitum frv. þess vert, að það sje samþykt, og verði að lögum. Get jeg að mestu vísað til þess, sem við segjum um þetta í nefndarálitinu á þgskj. 236. Það er ekki tilgangur frv. að takmarka að nokkru rjett manna til að flytja mál sín sjálfir, nje heldur að takmarka þann rjett, sem menn hafa haft að lögum til þess að láta þjóna sína eða frændur gera það. Hið eina, sem frv. fer fram á, er að takmarka rjett ólöglærðra manna til að reka mál fyrir bæjarþingsrjettinum í Reykjavík. Lögfræðingarnir vilja tryggja rjett sinn til þess, að það skuli að jafnaði vera þeir, sem málin eiga að flytja fyrir bæjarþingsrjettinum; og er það samkvæmt því, sem venja er í öðrum löndum,

Málið hefur verið borið undir bæjarfógetann í Reykjavík, og kveður hann hagsmunum aðila venjulega betur borgið, ef lögfróður maður flytur málið, heldur en ólögfróður. Helzt hefði frumv. átt að ná lengra, og eðlilegast væri, að sama reglan gilti um málfærslu fyrir undirrjetti, að minsta kosti í öllum kaupstöðum landsins, því að mín reynsla sem dómara er sú, að málin verði að jafnaði betur skýrð og því hægari viðfangs fyrir dómarann, ef löglærður maður flytur þau. — Að vísu skal jeg játa, að mín reynsla nær þar fremur skamt, því að jeg hef haft fá mál til meðferðar undanfarin ár. Þrátt fyrir þetta töldum við þó ekki ráðlegt, að fara lengra að svo stöddu, með því ð fremur óvíða mun enn, sem komið er, vera auðið, með hægu móti, að ná í löglærða menn til málfærslu utan Reykjavíkur. Ástæður minnihlutans fyrir því, að vera á móti frumv. þessu, munu vera þær, að hann er hræddur um, að það baki fátæklingum of mikinn kostnað. Við þessu mun varla hætt, því ð samkepnin mun varna því, að málafærslumenn taki ósanngjarnlega mikið fyrir störf sín. Jeg hygg, að niðurstaðan muni líka oftast verða sú, að það borgi sig betur, þegar öllu er á botninn hvolft, að láta löglærða menn reku mál fyrir sig en ólöglærða. enda þótt þeir kunni að heimta einhverjir minni málafærslulaun. Það ætti líka að bæta úr skák, og gera frv. aðgengilegra fyrir þá, sem líkt líta á það og háttv. minni hluti, að menn mega eftir sem áður láta þjóna sína og frændur reka mál fyrir sig.

Fyrir mjer eru það meðmæli með frv., að það hlynnir að lögfræðingastjettinni, því eg álit, að það geri það ekki um skör fram eða halli á aðra.