08.08.1913
Efri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

47. mál, styrktarsjóður handa barnakennurum

Jósef Björnsson, framsögumaður:

Jeg finn ekki ástæðu til að tala margt um mál það, sem hjer liggur fyrir, enda hefur nefndin gert grein fyrir skoðun sinni í nefndarálitinu. Nefndin leggur til, að 2. og 3. gr. frumv. sjeu samþyktar óbreyttar, en aftur vill hún breyta 1. gr., og er þar um allverulega efnisbreytingu að ræða. Í 1. gr. frv, er ætlazt til, að landssjóður leggi styrktarsjóðnum 2500 kr. um óákveðinn tíma. Þetta er 1500 kr. meira en sjóðurinn fær nú úr landssjóði. Nú er fyrst að líta á, hvort styrktarsjóðurinn muni eigi með núgildandi tillögum geta leyst ætlunarverk sitt af hendi. Nefndin álítur það hæpið, jafnvel þótt gera megi ráð fyrir, að fyrst um sinn muni eigi verða mikil þörf á styrkveitingum, þar sem mjög margir af kennurum landsins eru vafalaust ungir menn, og því engin hætta á, að þeir verði styrks þurfandi í nánustu framtíð. Nefndin vill því stuðla að því, að gera sjóðinn svo stóran á næstu árum, að hann geti komið að fullum notum, þegar þörf krefur. Þessu hyggur hún að megi koma til leiðar, ef landssjóður leggur 2500 kr, á ári til sjóðsins, en þó þannig, að eigi megi nota annað en vöxtu sjóðsins til árlegrar úthlutunar, fyr en hann er orðinn 50,000 kr. Eftir þann tíma falli landssjóðstillagið burtu. Samkv. núgildandi lögum má ekki úthluta öðru úr sjóðnum en ársvöxtunum, fyr en hann er orðinn 20,000 kr., en eftir að hann hefur náð þeirri upphæð, má veita 3/4 allra árstekna hans. Ef látið væri sitja við þetta, þá mundi sjóðurinn seint aukast og seint geta fullnægt ætlunarverki sínu. En ef svo er farið að, sem nefndin leggur til, þá mundi sjóðurinn innan fárra ára geta leyst það starf af hendi, sem honum er ætlað. Nefndin hefur miðað við, að af barnakennurum landsins, sem eru um 300, verði styrkþegarnir eða þeir kennarar, sem styrk geta fengið fyrst um sinn, sennilega ekki fleiri árlega en svo, að gera megi ráð fyrir, að vextir af sjóðnum komi að góðum notum. Ef gert er ráð fyrir, að ekki verði þörf á mörgum styrkveitingum fyr en eftir 30–40 ár, og nefndin telur líklegt að svo fari, þá verður sjóðurinn orðinn svo stór, að úthluta má úr honum árlega ríflegri upphæð, eða alt upp að 4000 kr. á ári; því um 1950 verður hann sjálfsagt orðinn alt að 80,000 kr., en þetta nemur allmikið yfir 100 kr. á hvern styrkþurfa, ef styrkþurfar væri 10% af tölu kennaranna. — Jeg finn svo ekki ástæðu til þess, að fara fleirum orðum um þetta mál, en vil taka það fram fyrir hönd nefndarinnar, að hún telur þessa brtill. sína vera til mikilla bóta, bóta, sem koma bæði fram á styrktarsjóðnum, til að auka hann fljótt og gera hann með því færan til að inna starf sitt vel af hendi, og fyrir landssjóðinn, sem innan skamms losast alveg við árgjald til styrktarsjóðsins, og leggur nefndin því mikla áherzlu á, að brtill. verði samþ.