09.08.1913
Efri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

93. mál, hallærisvarnir

Sigurður Stefánsson:

Háttv. 3. kgk. þm. (Steingr. J.) tók af mjer ómakið um sóknargjöldin, svo jeg get verið stuttorður.

Sóknargjaldalögin eru samin af góðum og greindum mönnum, er sæti áttu í milliþinganefnd um kirkjumál landsins og þau lög fengu því góðan undirbúning, og alt annan undirbúning, en mál, sem litt hugsuðum er kastað hjer inn í þingsalinn, og þar síðan afgreidd í flughasti. Þar var breytt öðru gjaldi, eldgömlu og ranglátu, og því var breytt í rjettlátara gjald, sem allir játa að er miklu betra en hið gamla var. Og er þó gjald þetta víða óvinsælt, aðeins af því að það er persónugjald En jeg verð þó að segja það, að eigi persónugjald nokkursstaðar við, þá er það. einmitt þar, sem ræða er um eins persónulegt mál og sálusorg einstaklinganna. Samt eru gjöldin óvinsæl og það þrátt fyrir það, þó þau komi miklu rjettlátara niður en gömlu gjöldin.

Háttv. frmsm. (G. B.) sagði, að hjer væri ekki um neitt nýmæli að ræða, og er það satt, að það er langt síðan, að tal að hefur verið um það, að ráða bót á hallærum. En það er alt annað að tala um það í ræðum og ritum, eða semja lög um það. Slík tilraun sem hjer, hefur ekki verið gjörð fyr, og það þarf mikla umhugsun og undirbúning innan þings og utan, áður en nokkur trygging sje fengin fyrir sanngjarnri og hagkvæmri löggjöf í þessu efni, og jeg álít, að við getum ekki forsvarað að afgreiða þetta mál með þeim tíma, er við höfum til þess, á þessu þingi.

Jeg hef tekið það fram, að jeg skil lög þessi svo, að þau eigi að bæta úr bráðustu nauðsyn, ef hallæri kemur, og jeg veit, að hafísinn — sem ekki er eina hættan — hefur ýmsa annmarka í för með sjer, verri grassprettu o. fl. En komi slík hallærisár eða hörð ár hvert eftir annað, þá þurfum við miklu hærra gjald en hjer er farið fram á, ef að sjóðurinn á að koma að verulegu gagni, en þá má hækka gjaldið eftir frumv. En þó grasbrestur geti stafað af hafís, þá getur hann komið af fleiri orsökum, og við getum ekki stofnað, hvorki á þessu þingi nje því næsta, svo stóran sjóð, að örugt sje, að hann geti komið í veg fyrir afleiðingarnar af mörgum harðindaárum í röð; væri þá tekið til þeirra ráða að hækka og hækka gjaldið hvað eftir annað, þá mætti jafnvel óttast fyrir, að þær hækkanir gætu orðið áhrifameiri en nokkur Ameríkuferða-prjedikari.

Sjóðurinn er því allsendis ónógur, gangi mörg hallærisár hvert eftir annað yfir landið, hvort heldur er þau stafa af hafís, fiskleysi eða öðru. Vitanlega gæti sjóðurinn gert eitthvert gagn, en það yrði að, eins lítið eitt. Og það jafnvel þótt langur tími líði til næsta hallæris frá stofnun hans, og hann því orðinn svo stór að milliónum kr. skifti.

Jeg sagði, að það væri örðugt, ef ekki ómögulegt að bæta fyrirhyggjuleysið, en það er hjer versta meinið, og jeg stend við það.

Að lokum skal jeg taka það fram, til að fyrirbyggja allan misskilning, að jeg er samþykkur háttv. frmsm. (G. Bj.) um, að það sje betra að leggja á nýja skatta, en að leggja út á lánabrautina. Hún er hál og hættuleg.