13.08.1913
Efri deild: 29. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

92. mál, sauðfjárbaðanir

Jósef Björnsson, framsögumaður:

Jeg vil fyrst geta þess, að í nefndarálitinu er prentvilla í fyrirsögn 3. dálks, í töflunni á bls. 2; þar á að standa baðað fyrir bað. — Annars ætla jeg ekki að fjölyrða um þetta mál, því að nefndin hefur lýst sinni skoðun á því í nefndarálitinu. Allir munu vera sammála um, að mikill hagnaður sje að böðum; þrif og hreysti fjárins verður miklu meiri, og þar að auki stuðla böðin að útrýming kláðans. Þegar rætt var um kláðamálið á alþingi 1912, var það skoðun nefndarinnar, sem skipuð var í málið, að árleg þrifaböð væru æskileg fyrir margra hluta sakir, og er óhætt að segja, að meiri hluti þingsins aðhyltist þá skoðun. Þess vegna var þá samþykt þingsályktun um, að leita umsagnar fjáreigenda í öllum hreppum landsins, hvort þeir óskuðu, að samin yrðu heimildarlög um þrifaböð á sauðfje. Nú hafa svör komið úr flestum hreppum landsins, og má sjá yfirlit yfir þau í nefndarálitinn. Af því yfirliti sjest, að 109 hreppar vilja hafa heimildarlög, en 32 hreppar vilja hafa almenn lög, sem fyrirskipi baðanir um land alt, af því að þeir óttist, að heimildarlögin reynist ónóg. 31 hreppar er böðum hlyntir, en þó mótfallnir lögum um þetta efni og telja þau óþörf, af því að alment sje baðað nú þegar. Einir 12 hreppar eru mótfallnir öllum lögum um baðanir, og verður jafnvel ekki af svörum þeirra sjeð, að þeir sjeu hlyntir böðun sauðfjár yfir höfuð að tala . 10–20 hreppar hafa engin svör sent.

Af þessu er ljóst, að mikill meiri hluti sauðfjáreigenda í landinu er þeirrar skoðunar, að árleg böð á sauðfje sjeu nauðsynleg og 141 hreppur óskar lágasetningar um það efni. — Nefndin hyggur, að heppilegast sje, að fara þá leið, sem frv. bendir til: að lögskipa árlegar baðanir á öllu sauðfje. — Þar með væri þeim hreppum, sem óska samþyktarlaga, engin þvingun sýnd, því enginn getur í alvöru óskað slikra laga án þess að meiningin sje að beita þeim. Enda mundu þeir hreppar, sem samþyktarlaganna óska, vafalaust hafa tjáð sig hlynta almennum lögum, ef þeir hefðu verið spurðir um það. Hitt gæti fremur komið til mála, að þeim hreppum væri nokkur þvingun sýnd, sem hafa tjáð sig mótfallna allri lagasetningu í þessu efni, en eins og jeg áður tók fram, eru þeir sárfáir. — Nefndin hikar því ekki við að leggja til, að frv. verði samþykt. Hagnaðurinn af lögum, sem heimila samþyktir, yrði miklu óvissari, því að hætt er við, að samþyktir kæmust ekki alstaðar svo fljótt á, sem æskilegt væri. Þá telur nefndin það einnig þýðingarmikið, að líkur eru til, að betri baðlif verði notuð, ef almenn lög eru sett, heldur en ef hvert hreppsfjelag eða sýslufjelag gerir sjerstaka samþykt og notar svo þau baðlif, sem þar eru á boðstólum. Auk þess er mikill sparnaður að því, ef öll baðlif sjeu keypt í einu lagi. Ef innkaup eru gerð í stórum stíl, verður varan vafalaust miklu ódýrari en ella.

Breytingar þær, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frv., eru mestmegnis orðabreytingar. Aðalbreytingin er, að bætt verði inn í nýrri grein á undan 7. gr., og hefur verið gerð grein fyrir þeirri brtill. í nefndarálitinu,

Um tilefni þessarar nýju greinar skal jeg þó taka það fram, að þótt kláði sje ekki nema óvíða í landinu, má þó búast við, að fyrirskipaðar kunni að verða kláðabaðanir á stærri eða minni svæðum samkvæmt kláðalögunum frá 1901, og þurfti því að ákveða, hvernig með lög þessi skyldi fara, þegar svo stæði á. Samkv. skýrslum, sem stjórnarráðinu hafa borizt, hefur á síðastliðnum vetri orðið vart við kláða hjer og þar. Að vísu eru hinar kláðasjúku eða kláðagrunuðu kindur mjög fáar, en samt getur verið full ástæða til þess að fyrirskipa kláðabaðanir á nokkrum svæðum samkv. kláðalögunum frá 1901. Að vísu er það litt viðkomandi frv. því, sem hjer liggur fyrir, hve mikill fjárkláðinn virðist vera, en jeg vil þó geta þess, að samkvæmt skýrslum, sem stjórninni höfðu borizt um kláða á síðastliðnum vetri og vori, og nefndin hafði til athugunar, er alls getið um 30–40 kláðagrunaðar kindur í 6 sýslum. Af þeim var ein í Vestm.eyjum, 1 í S.-Múlas., 8 í Skagafirði, 5 í Eyjafirði, 16 í Rangárvallasýslu og fáeinar kindur í Þingeyjarsýslu. Þó að þessar tölur sjeu ekki háar, þá sýna þær þó, að kláðinn er ekki aldauða, og að nauðsynlegt er, að haft sje gát á honum.

Að svo mæltu vil jeg leyfa mjer að leggja til, að hv. deild samþykki frv. með brtill. nefndarinnar.