16.07.1913
Neðri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (194)

14. mál, vitagjald

Magnús Kristjánsson:

Það lítur svo út, sem tillögur nefndarinnar ætli að fá lítinn byr í háttv. deild, og fara þær þó skemmra, en títt er að fara að þessu leyti í allflestum nágrannalöndum vorum. Það sem mér gengur til þess, að styðja það, að þessar undanþágur verði veittar, er það, að eg lít svo á, að þetta gjald hljóti að skoðast sem nokkurs konar okurgjald, þar sem vér nú göngum svo miklu lengra en grannaþjóðirnar í því, að íþyngja á þann hátt bæði vorum eigin skipum og annara þjóða, er hafa vilja samneyti og viðskifti við oss. Þess vegna álít eg mótbárur, þær sem fram hafa komið gegn tillögum þessum, fremur veigalitlar, ef eigi alveg óþarfar. Og eg hygg að þeir sem mest hafa haft á móti þeim, hafi litla grein gert sér fyrir því, hverjar fjárhagsafleiðingarnar yrðu fyrir oss í raun og veru.

Fyrst er að minnast á skemtiferðaskipin, og mundi ef til vill mega reikna sér svo sem 3 þús. kr. af þeim. En þar sem það er nú nokkurn veginn fullvíst, að þau muni hætta að koma hingað, nema þessum skatti verði af þeim létt, þá fer að verða til lítils að gera ráð fyrir þeim tekjum. Bezta sönnunin fyrir því, að þetta sé rétt, er sú, að þau skip slík, er áður sigldu til Svíþjóðar, eru nú hætt að koma þar, einmitt af sömu ástæðu, svo að vér erum ekki vissir um að fá þessa peninga í landssjóð, þótt ráð sé gert fyrir þeim.

Um gjaldið af nauðstöddum skipum — sem mér annars skilst að svo mikil mótspyrna sé á móti að af sé létt skal eg taka. það fram, að það mundi ekki nema meiru en svo sem 100–200 kr. á ári, svo að slíkt munar engu. Og um botnvörpunga er það að segja, að það hefir ekki einu sinni verið farið fram á það, að létta gjaldinu alveg af þessum íslenzku skipum, sem fara utan til að selja afla sinn, en það er satt, að það hefði einmitt átt að vera gert Það væri varla ívilnun um skör fram, jafn margvisleg önnur gjöld sem hvíla á útveginum til landssjóðs, einkum þar sem þetta mundi ekki fara fram úr svona 1000 kr. á ári. Það eru ekki stórvægilegar upphæðir, sem hér er um að ræða, og því ekki tilvinnandi fyrir þær að leggja á svo ósanngjarnt gjald, sem Vitagjald er um þann tíma. árs, þegar alls ekki er kveikt á vitum, eins og á sér stað um skemtiferðaskipin, sem varla koma hingað nema um hásumarið þegar þau hafa ekkert gagn af vitunum. Annað mál er um þau Skip, sem nota vitana þegar þeirra er mest þörf.

Eg vona nú að jafnvel þessir háttv. þingmenn, sem eindregnast hafa mótmælt, muni, við nánari íhugun, sjá það, að hér er ekki svo miklu tapað, að þeir sjái sér ekki fært að samþykkja breytingartillögur nefndarinnar, eins og þær eru.