16.07.1913
Neðri deild: 12. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (199)

14. mál, vitagjald

Eggert Pálsson:

Eg get tekið í sama strenginn og háttv. framsm. (B. J.) um það, að þetta sé ekkert stórmál, sem hér er verið að ræða um, eftir því sem venjulega skilst við það orð. En þótt það skifti ekki miklu fyrir ina einstöku gjaldendur, hvort undanþágurnar eru Veittar eða ekki, að því er skemtiferðaskipin snertir, þá skiftir það aftur á móti talsvert meiru, þegar litið er til landssjóðsins. Það er ekki svo býsna litið fé, sem hér er farið fram á að svifta hann. Eftir því sem mér er kunnugt, hafa þessi tvö þýzku ferðamannaskip, er hér voru fyrir skemstu, greitt 4000 kr. í vitagjald. Og ef um mörg slík skip yrði að ræða í framtíðinni og þau yrðu leyst frá öllu gjaldi, þá mundi það verða ekki svo lítill tekjumissir fyrir landssjóðinn, enda þótt gjaldið muni mjög litlu fyrir þá, er það gjald eiga að inna af hendi. Því eftir því sem mér skilst, mun það seinast koma niður á farþegunum sjálfum, og verður það þá ekki mikið í hvern stað.

Háttv. framsm. (B. J.) hélt því fram, að það væri til mikils hagnaðar fyrir landsmenn að fá þessi skip hingað. Það er mikið álitamál um slíkt. Eg fyrir mitt leyti verð að halda við fyrri skoðun mína á því, og hygg að hún hafi við jafnmikil rök að styðjast, að tjónið geti að miklu leyti í þessu efni vegið upp á móti gróðanum, allra helzt ef skipin eru leyst frá þeirri skyldu, að greiða vitagjaldið. Eftir upplýsingum háttv. frsm. er fátt auðmanna með þessum skipum, en meiri hlutinn fátækir menn eða lítt efnum búnir. Og sé Svo, þá verður því síður séð, að landamenn geti grætt mikið á verzlunarviðskiftum við þá. En hins vegar get eg ekki annað en gjört lítið úr skemtunum, þeim er þeir veita Reykjavíkurbúum með dansleikum og átveizlum og öðru slíku.

Hvað hinn liðinn snertir, að ívilna botnvörpungunum, þá hafa, eins og eg sagði, engar kvartanir komið fram frá þeim. Og þótt vitanlega nefndin hafi heimild til að taka sér fram um það, að veita þeim fyrir sitt leyti slíka ívilnun, sem hér um ræðir, þá sýnir það, að engar kvartanir hafa komið fram frá sjálfum útgerðarmönnum botnvörpunganna, að þeir eru ekki mjög óánægðir með vitagjaldið eins og það er. Ef þeim fyndist það ósanngjarnt, væri þeim sjálfum treystandi til að bera sig upp undan því við Alþingi. En sannleikurinn mun vera sá, að útgerðarmönnum mun þykja tilvinnandi að borga ríflegt vitagjald, ef það gæti orðið til þess, að vitunum yrði því fremur fjölgað og þeir bættir, heldur en að sú braut, sem Alþingi hefir gengið inn á í vitamálunum, yrði á nokkurn hátt heft eða stöðvuð.

Háttv. þm. Ak. (M. gr.) taldi það ósanngjarnt, að heimta vitagjald af skemtiferðaskipunum, af því að þau kæmu á þeim tímum, sem vitar eru ekki kveiktir. En ef þau væru leyst undan gjaldskyldunni vegna þess, er hætt við að sama sanngirniskrafan gæti komið frá öðrum skipum, sem ilt yrði að spyrna á móti, og mundi þá koma æði mikið skarð í vitagjaldið, ef eigi skyldi greiða það af neinu skipi nema þegar nótt Væri dimm.

Háttv. 1. þm. G.-g. (B. Kr.) tók það fram, að að sama skapi sem vitunum fjölgaði, mundu og siglingarnar til landsins vaga. Eg get ekki að öllu leyti fallist á það. Eg býst við að það fari allmikið eftir öðru, verzlunarmagni, fólksfjölgun og öðru slíku, að minsta kosti jafnframt.

Hvað það snertir, sem í nefndarálitinu er haldið fram, að eðlilegast væri að notendur vitanna þyrftu ekki að kosta þá, og að því væri hagað eins og um vegabætur á landi, þá er það algerlega rangt. Stefna þingsins hefir verið sú, að koma viðhaldsgjaldi veganna sem mest á notendurna sjálfa. Sýslunum hafa verið afhentir vegir til viðhalds, þar sem því hefir orðið viðkomið, og kostnaðinum, sem af því leiðir, er að síðustu jafnað niður sem aukaútsvörum á gjaldendurna í hverjum hreppi. Eg er í engum vafa um, að svo framarlega sem hægt hefði verið að leggja viðhaldskostnaðinn beinlínis á þá menn, er um vegina fara, þá hefði það verið gert. En það er eins og allir skilja ómögulegt og óframkvæmanlegt og þess vegna ekki verið gert. Hér er það aftur á móti hægt, að leggja vitagjaldið á þá, sem um sjóinn fara og sigla að eða frá landi, og því er rétt og sanngjarnt að gera það.