21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

94. mál, kosningar til Alþingis

Jósef Björnsson:

Jeg er sammála h. nefnd um, að ýmsar breytingar frv. sjeu til bóta, og það sjerstaklega fyrsta breytingin, sú megin breyting þess, að sýslumaður megi ekki sitja í kjörstjórn, ef hann sjálfur er frambjóðandi.

Breytingin á kjörseðlunum er aftur á móti nokkurt vafamál. Krossarnir eru að vísu oft nú þannig gerðir, að seðlarnir verða ógildir. En það er líka nokkuð vafasamt, hvort stimpluðu seðlarnir, sem hjer er farið fram á, geta ekki orðið ógildir. Það er ekki ómögulegt, að skjálfhentur maður geti farið þannig að með stimpilinn, að kjörseðillinn verði ónýtur.

Um lengingu tíma til atkvæðagreiðslu eða tímalengdina, sem ætluð er kosningarathöfninni sjálfri, vildi jeg benda hv. nefnd á það, að jeg hygg, að hún hafi eigi haft í huga, á hvaða tíma kosning fer fram, sem sje fyrsta vetrardag. Þá er tekið að gerast stuttir dagar og dimt á kvöldum. Það er augljóst, ef kosningin dregst svo lengi, að nemi 6 klst., að þá muni margir menn verða nokkuð seint á ferli, og geta ekki náð heim til sín fyr en komið er langt fram á nótt. Þótt ástæða sje til að lengja tímann, tel jeg svo mikla lenging fullkomlega óþarfa.

Það hefur orðið deila um 1. brtill. nefndarinnar, og hvort samræmi væri milli hennar og næstu brtill. Hv. frsm. (H. K.) gat ekki sjeð rjettmæti ummæla hv. þm. N.-Múl. (E. J.) um það efni. En mjer finst augljóst, að „atkvæði talin“ þýði, er atkvæði hafa verið talin. Ef sagt er t. d.: „maður er veginn“, þá merkir það að búið er að vega hann eða drepa hann. Líka merkingu verða þessi orð atkvæði talin að hafa. En það er vel hægt að samþykkja þessar brtill. í því trausti, að hv. nefnd lagi þetta við 3. umr.

Jeg verð því að vera sammála hv. 6. kgk. þm. (G. B.) um, að það sje ekki ástæða til að taka málið út af dagskrá. heldur sje rjettara, að laga það við 3. umr., er laga þarf. Það er ekki til annars en tefja málið að taka það út af dagskrá, en það er ekki rjett, því að það felur í sjer góðar og nauðsynlegar umbætur, að minsta kosti að sumu leyti.