21.08.1913
Efri deild: 35. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

109. mál, forðagæsla

Hákon Kristoffersson:

Jeg get ekki greitt atkvæði með d-lið 3.brtill. nefndarinnar, því að jeg álít, að hausthreppaskilin sjeu fult svo heppileg í því efni, sem hjer er um að ræða, eins og vorhreppaskil. Í Vestur-Barðastrandursýslu er það svo í sumum hreppum, að einir 5–6 bændur koma á vorhreppaskil, en allir eða flestir á hausthreppaskil. Betra væri, ef í brtill. stæði: „annaðhvort á vorhreppaskilum eða hausthreppaskilum“. En að nota almenna sveitarfundi til upplesturs, finst mjer ástæðulaust. Þá álit jeg og betra, að hreppstjórinn lesi upp heldur en forðagæzlumaðurinn, því að hugsazt gæti, að forðagæzlumaðurinn væri ekki viðstaddur, en hreppstjórinn er þó í flestum tilfellum staddur á hreppaskilum. Eins og frv. er nú, þá verð jeg að halda því fram, sem jeg áður hef sagt, að það sje að mörgu leyti mesti gallagripur. Líka er það mitt álit, að óviðlíka mál og þetta þurfi að vera athugað og undirbúið, áður en á þing væri komið, þ. e. rætt á sveitar- eða þingmálafundum, en ekki hrapað að því á nokkurn veg, eins og mjer virðist á þessu frv. að gert hafi verið.