22.08.1913
Efri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Júlíus Havsteen:

Í frumv. þessu, er það tekið fram, að samþyktir þessar eigi ekki að gilda lengur en 5 ár. Þetta sýnir bezt, hversu ljelegar menn telja þær, og hversu lítið traust er borið til þeirra. Og jeg lít líka svo á, að það sje spursmál um það, hvort að þessi lög sjeu samhljóða lögum þeim, er þau styðjast við, frá 14. .des. 1877.

Hvernig háttv. 3, kgk. þm. (Stgr. Jónss.) hyggur, að Akureyrarkaupstaður verði hlutskarpastur, skil jeg ekki; jeg býst einmitt við, að það verði þvert á móti.

Að lyktum vil jeg taka það fram, að jeg hygg, að ef frumvarp þetta nær fram að ganga, þá geti vel komið fyrir, að samþyktirnar verði ekki í samræmi við gildandi lög. Sektirnar mega sem sje eftir lagafrumvarpinu vera alt að því 500 kr., en í lögum 14. desbr. 1877 um ýmisleg atriði, er snerta fiskiveiðar á opnum skipum, er hámark sekta ákveðið 100 kr. Það getur því hæglega svo farið, að sektir í herpinótaveiðisamþykt verði ákveðnar yfir 100 kr., sem hlýtur að hafa þá afleiðing, að samþyktin verði eigi staðfest.