22.08.1913
Efri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

57. mál, girðingar

Steingrímur Jónsson:

Jeg tek undir með hv. frsm. (J. J.), að mál þetta sje þýðingarmikið og þess vert, að það fái framgang, með því að hjer sje um umbætur að ræða á girðingarlögunum frá 30. júlí 1909.

Það er alkunna, að girðingaröld sú, sem nú er upprunnin, er ein kröftugasta lyftistöngin í búnaðarframförum vorum. En það er annað atriði, sem hjer kemur til greina, og ekki má gleyma að taka með í reikninginn, það eru samgöngurnar á fandi. Við allar búnaðarbætur verðum vjer að gæta þess, að teppa þær sem minst má verða. Nú eru að verða svo miklar breytingar í samgöngum vorum, þar sem eru að koma hjól í staðinn fyrir klakka, vagnar í staðinn fyrir reiðinga, og akbrautir í staðinn fyrir götustigina fornu. Einmitt með þetta fyrir augum get jeg ekki verið samþykkur 6. brtill. h. n.; mjer virðist hún vera mjög athugaverð. Jeg lít svo á, að ákvæði þau, sem nú eru í gildandi lögum um girðingar yfir akvegi, sjeu alveg nauðsynleg, og þurfi sjerstaklega að ná til allra akvega. Það er ekki nóg, að aðeins skuli leita samþykkis sýslunefndar um það, hvort girða megi yfir veg, sje hlið haft á girðingunni, þegar um flutningabraut er að ræða. Nú hefur þegar verið ákveðið, að gera ýmsa þjóðvegi akfæra, og eru sumir þeirra alveg eins fjölfarnir eins og flutningabrautirnar; jeg skal nefna til dæmis þjóðveginn út frá Akureyri út Kræklingahlíð; hann er akfær vegur, og umferð um hann sízt minni, en um flutningabraut frá Akureyri fram Eyjafjörð. Þá eru enn fremur sýsluvegirnir. Sýslunefndir eru nú í óða önn að gera þá akfæra. Ef brtill. h. n., yrði samþykt, þá er jeg sannfærður um, að ekki yrði hálft gagn að vegum þessum, við það sem orðið gæti, ef hægt væri að fara tálmanalaust um þá. Jeg skal nefna til Reykjadalsbrautina, til að sýna fram á, hvílík tálmun fyrir ferðamenn er að því, að girt sje yfir vegi. og það þótt lokuð hlið sjeu á girðingunum. Braut þessi verður um 38 kílómetrar, og kostar fram undir 100 000 kr. Ef öllum þeim, sem lönd sín girða á þessu svæði, væri leyft að girða yfir brautina, þá er jeg viss um, að hún yrði mjög bráðlega lokuð á 15–16 stöðum með girðingum. En hvað leiðir svo af því ? Það þýðir það, að brautin kemur ekki að hálfum notum til vagnferða. Maður er á ferð um veginn með pratalegan hest fyrir vagni sínum. Þegar að hliði kemur, verður hann að fara af vagninum, spenna frá, opna hliðið, spenna hestinn fyrir vagninn, teyma hann gegn um hliðið, spenna aftur frá, loka eftir sjer, og spenna aftur fyrir. Þetta er ekki lítil tímatöf og umsvif, og jeg er viss um, að þegar þessi maður er búinn að fara um nokkur hlið sama daginn, þá muni hann bölfa öllu þessu umstangi innilega í hjarta sínu. Þegar við erum að kosta upp á dýra vegi, þá dugar ekki að teppa umferðina með því, að þvergirða þá; jeg tala ekki um, ef „sjálfrenningar“ verða teknir upp, og eiga að fara um þá. í Danmörku sjást hvergi girðingar yfir aðalvegi. Að vísu voru þær til áður, en þá sat maður við hliðið til að opna það, og tók gjald af þeim, sem um fóru (Bompenge). Svo var það t. d. á Strandveginum við Kaupmannahöfn.

Jeg álít, að þannig þurfi að breyta tillögu h. n., að ekki megi girða yfir nokkurn akveg, hverju nafni sem nefnist, nema fengið sje til þess samþykki hlutaðeigandi stjórnarvalda. Þetta bið jeg háttv. nefnd að taka til íhugunar og Iagfæringar. Mjer er það áhugamál, að frumv. fái framgang, en þó þykir mjer svo mikils um vert, að 6. brtl. h. n. sje lagfærð á þann hátt, sem jeg hef bent á, að jeg mun ekki geta greitt atkvæði með málinu, sjái h. n. sjer ekki fært að verða við tilmælum mínum, og kippa málinu í lag til 3. umr., verði brtl. hennar samþykt nú.