06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

21. mál, íslenskur sérfáni

Eiríkur Briem:

Jeg var einn í fánanefndinni og hef skrifað undir með fyrirvara, þar eð jeg var ekki samþykkur, hvorki meiri nje minni hluta nefndarinnar. Að efni til þykist jeg vita, að hugir manna fari talsvert saman, en að formi til mun meiningamunur. Þannig gat jeg t. d. ekki skrifað undir brtill., sem háttv. tveir meðnefndarmenn mínir bera fram, og get eigi álitið það óverulegt atriði, þar sem því er þannig varið, að ef þessi breyting er gerð, má leggja meiri meining í atkvæðin en er, þegar atkvæðagreiðsla fer fram, og eftir orð háttv. ráðherra er jeg fremur orðinn fylgjandi þeirri skoðun, að láta þetta mál ekki ganga fram á þessu þingi og vil því leyfa mjer að bera fram rökstudda dagskrá, er jeg afhendi háttv. forseta.

Dagskráin hljóðaði svo:

„Þar eð þingdeildinni þykir ekki hentugur tími til að ræða frekar um þetta mál, tekur hún fyrir næsta mál á dagskránni“.