06.09.1913
Efri deild: 48. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

72. mál, landskiptalög

Jón Jónatansson framsögumaður:

Hátlv. neðri deild hefur gert nokkrar smávægilegar breytingar á frv.; enda þótt þær sjeu lítilfjörlegar og mestmegnis orðabreytingar, hefur nefndinni samt þótt rjettast að víkja þeim dálítið við.

Nokkur hætta er á, að misskilja megi orðalagið í 1. gr. vegna þess, hvernig orðið landamerki er notað. Það orð táknar ytri ummerki jarða, er aðgreina land þeirra frá landi annara jarða, en greinina mætti skilja þannig, að ef jarðirnar hafa viðurkend landamerki. þá geti óskift land þeirra ekki komið til skifta samkvæmt þessum lögum, en til þess er einmitt ætlazt. Til þess að girða fyrir misskilning ber nefndin upp breytingartillögur við 1. gr., sem fer fram á, að í staðinn fyrir, „nje heldur hafa viðurkend landamerki“, komi: „eða viðurkend merki eru til um“.

Þá hefur neðri deild fellt burtu ákvæðið um, að aðilar megi ekki tefja matstörf eða skifti, nema nauðsyn beri til. Þetta var upphaflega tekið upp í frumvarpið til þess að koma ákvæðum þessara laga í samræmi við frumv. til Iaga um vatnsveitingar. Það virðist betur fara á þessu samræmi, og því leggur nefndin til, að þetta ákvæði, sem ójer ræðir um, verði tekið upp aftur í frv.

Aðalefnisbreytingin er við 8. gr. Þegar frv. fór hjeðan úr deildinni, var svo til ætlazt, að ákvæðin um meðferð á ræktuðu landi, sem einhver hefur ræktað úr óskiftu sameignarlandi, kæmu því aðeins til greina, að landið væri ræktað án samþykkis hinna sameigandanna; en ef svo væri samið, að þessi ræktaði hluti skyldi vera eign þess, sem ræktaði, þá kæmi þetta land ekki til skifta. Nú er lagt til að breyta greininni þannig, að þessi upprunalegi tilgangur komi skýrt í ljós. Að öðru leyti vísa jeg til nefndarálitsins.

Þá komum við með brtill. um að breyta orðalagi 11. gr. Við viljum ekki skylda menn til að setja regluleg landamerki, fyr en yfirmat hefur farið fram, ef þess verður krafizt. Þó er nauðsynlegt að setja merki við fyrri skiftin, og þarf það að koma skýrt fram í lögunum, og höfum við komið fram með brtl. í því skyni.

Breyting sú, er neðri deild hefur gert á 13. gr., stafar víst af misskilningi. Það var ætlazt til, að sýslumaður gæti breytt skattskyldu jarðæða jarðarparta samkvæmt skiftunum, en til þess var ekki ætlazt, að breyta skyldi matinu, nje heldur til hins, að skattskyldan væri óbreytt, þar til nýtt jarðamat færi fram.

Þá hefur neðri deild gert breyting á 15. gr., í þá átt, að ítölu skuli meta eftir jarðardýrleika eingöngu, en í frumv. stóð, er það fór hjeðan, að meta skyldi eftir jarðarmagni, og var með því ekki eingöngu átt við stærð jarðanna að hundraðatali, heldur raunverulega stærð, eða með öðrum orðum það, hve jörðin getur framfleytt miklum fjenaði. Það verður að taka tillit til hvorstveggja, stærðar og hlunninda. — Það þarf ekki að fara saman. Jörð getur átt eða hafa átt varphólma, laxveiði eða önnur dýrmæt hlunnindi, og verið þessvegna hátt metin; getur líka verið, að matið hafi verið bygt á hlunnindum, sem nú eru ekki lengur til, og þessvegna ekki rjett að einskorða mat á ítölu í haga, eftir hundraðatali, þar sem það alloft er þannig vaxið, að það með engu móti getur talizt einhlítur mælikvarði fyrir beitarrjetti í óskiftu landi. Jörð getur verið hátt metin, en þó land lítið í samanburði við aðra, sem lægra er metin, og á beitarrjett saman við hana í óskiftu landi. Er því rjett, að líta á fleira við slíkt mat en hundraðatalið eitt.

Samkvæmt brtill. okkar á bæði að fara eftir jarðardýrleika og jarðarstærð. — Þetta voru nú brtill. okkar. Það, sem ennfremur sjerstaklega þarf leiðrjettingar við, er 6. gr. frv. eins og Nd. hefur gengið frá henni. Síðari málsgrein þeirrar greinar verður ekkert annað en óþörf endurtekning, enda mun það aðeins vera af vangá, að hún var ekki feld burt í Nd. Jeg skal geta þess, að jeg hef borið mig saman við framsm. landbúnaðarnefndarinnar í Nd., og hann hefur talið líklegt, að breytingar okkar mundu ekki stofna málinu í neina hættu þar í deildinni, enda vildi nefndin alls ekki eiga það á hættu fyrir þessar breytingar, að frv. fjelli, því nauðsyn er á því, að þetta mál nái fram að ganga. En jeg treysti því, að málinu sje borgið, þó það fari aftur til neðri deildar, og vona jeg því, að háttv. deild samþykki frv. í þessu formi.