09.09.1913
Efri deild: 50. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

58. mál, hvalveiðamenn

Eiríkur Briem:

Það er kunnugt, hvernig jeg lít á þetta mál.

Fyrir n. virðist það helzt vaka, að von geti verið á hvalrekum, sem geti komið að góðu haldi í harðærum, en þetta nemur svo litlu, að ekki er nema örlítill hluti af því, sem hvalveiðamenn borga í landssjóð; og væri því fje varið til að kaupa fæðu fyrir í hallærum, mundi það til meiri hjálpar landsbúum en óvissir hvalrekar. Að því er það snertir, að hvalveiðarnar spilli fiskigöngum, þá fjekk fólk norður á Finnmörk þessa flugu, og kvað svo ramt að, að það ætlaði að flytja úr landi þúsundum saman. Þetta knúði löggjafarvald Norðmanna til að skerast í leikinn og friða hvalina. Þessi fluga barst svo hingað með Norðmönnum, og þaðan er þetta sprottið, og er ósannað, að þetta sje á nokkrum rökum bygt. Háttv. n. hefur alveg leitt hjá sjer að aðgæta, að lög þessi svifta landssjóð alveg þeim tekjum, sem hann getur haft af hvalveiðamönnum; fyrst og fremst er útflutningsgjaldið, sem 1912 nam um 14 þús. kr. auk annara gjalda, sem þeir greiða, t. d. aðflutningsgjaldsins af nauðsynjum þeirra, og mun þetta muna samtals um 20 þús. kr. Þessar tekjur geta að vísu smáminkað, en gott er meðan þær eru. Og það dugar ekki að banna hvalveiðamönnum að hafa stöðvar sínar hjer, meðan þeir geta hafzt við í Færeyjum, því þá veiða þeir alveg eins hjer í nánd, en landssjóður missir bara tekjurnar. Þá er enn óupplýst um skaðabæturnar. Það er óvíst, hvort þeir gætu ekki heimtað þær fyrir hús og lóðir, þótt þeir fengju þær ekki fyrir atvinnutjón. Og nú er á það að líta, að þó þeim yrðu ekki dæmdar skaðabætur, þá getur þetta fælt bæði innlenda og útlenda menn frá að setja upp atvinnurekstur hjer á landi. Álít jeg að mál þetta eigi ekki fram að ganga, en sökum þess, að frestur er á illu beztur, vil jeg þó samþ. till. minni hluta nefndarinnar. Álít, að eins og komið er, sje bezt að fresta málinu; þessi lög geta komizt á 1916, þótt frv. bíði þings 1915, og það er ekki einu sinni víst, að þau þurfi að bíða nema til næsta árs, ef aukaþing verður 1914, og á þeim tíma ætti að vera fengin full vissa um skaðabæturnar og annað, sem að málinu lýtur.