10.09.1913
Efri deild: 51. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

38. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Stefánsson:

Aðeins örstutt athugasemd.

Það þurfti ekki að fræða mig um konungsbrjefið 1844. En þó að það væri 30 ára gamalt 1874, er stjórnarskráin var gefin út, þótti dönsku stjórninni ástæða til að setja ákvæði þessa konungsbrjefs um kunnáttu á máli landsins inn í stjórnarskrána. Jeg sje ekki annað, en að þingið með því nú að sleppa þessu ákvæði úr 4. gr. stjórnarskrárinnar sje danskara en danska stjórnin var 1874, og er þó ekki á bætandi. Þó að það hafi ef til vill ekki mikla „praktíska“ þýðing, þá á það illa við, að Íslendingar sjálfir striki þetta út alveg að ástæðulausu, og jeg tel það jafnvel ganga óhæfu næst.

Það var þessi athugasemd, sem jeg vildi gera um frv.

Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, þótt mjer sje brugðið um stjórnarfylgi. Jeg fylgi henni og skammast mín ekkert fyrir það, þótt illa kunni það að láta í eyrum þeirra, sem jafnan skima í allar áttir eftir hylli fjöldans og því tel jeg alveg óþarft að stinga að mjer þeirri pillu.

Jeg skal og bæta því við, að jeg tel fjölgun ráðherra hina mestu nauðsyn, og því liggi á að koma henni sem allra fyrst í framkvæmd, þó ekki sje lítið á annað en undirbúning málanna undir alþing frá stjórnarinnar hálfu. Þá er jeg lít á undirbúning mála undir þing, dylst víst fáum, hve ábótavant honum er, sem stafar af því, að einn maður fær ekki annað þessum mikla og margháttaða undirbúningi. Ef menn kjósa sjer afkastasama stjórn, má í rauninni enginn tími líða, þar til þessari bráðnauðsynlegu breyting er komið á stjórnarskipun vora; þessvegna hefði átt að setja það nú þegar í stjórnarskrána; á hinn bóginn má búast við því, að þeir, sem tala hæst við alþýðu móti embættafjölgun og eftirlaunum og kalla alla embættafjölgun óhæfa, hversu þörf sem hún er, fái skotið loku fyrir þessa bráðnauðsynlegu breyting um langan tíma.