12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Jónsson:

Mjer finst ekki hægt að samþykkja frv., eins og það liggur fyrir, vegna þess hvernig 2. gr. þess er orðuð. Eftir að tekið hefur verið fram í fyrri hluta greinarinnar, að sendiræðismönnum framandi ríkja sje heimilt að flytja frá útlöndum einu sinni á ári hæfilegan áfengisforða til heimilisþarfa sinna um eitt ár í senn, þá er þessu bætt við: „öðrum en þeim, er hjer hafa verið taldir, má ekki leyfa innflutning áfengis, flutning úr skipi í annað skip eða úr skipi í land“. Eftir þessum orðum sýnist öllum öðrum en sendiræðismönnunum vera undantekningarlaust bannað, að flytja vín hjer í land. Með öðrum orðum: þeim, sem eftir 2. gr. bannlaganna er leyft að flytja hjer áfengi í land, er með þessum lögum bannað það eftir því sem orðin hljóða. Það er þó vitanlega ekki tilætlunin. Til þess að ráða bætur á þessu, hefði frv. þarft að byrja á þessa leið: „Aftan við aðra grein komi ný málsgrein svo hljóðandi“.

Eins og greinin er nú orðuð, finst mjer hún ekki geta staðið, ef ekki á að svifta þá innflutningsleyfi vínfanga, sem nú hafa það, því að yngri lög gilda fram yfir eldri, ef þau koma í bága hvor við önnur. Jeg sendi í prentsmiðjuna brtill., sem á að bæta úr þessu; hún er ókomin, ef háttv. deild vildi samþykkja hana, þyrfti að fresta málinu um stund.