12.09.1913
Efri deild: 53. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jósef Björnsson:

Jeg greiddi áðan atkvæði móti því, að málið yrði tekið til umræðu, áður en nefndarálit er komið fram, því jeg bjóst við, að háttv. nefnd mundi koma fram með tillögu um að lagfæra þá galla, sem nú eru á frv. Mjer finst 2. gr. frv. með öllu óaðgengileg, eins og hún er nú. Það er mesta aflægi, að vera að leyfa sendiræðismönnum að flytja vínföng í land og skip úr skipi, það er aflægi, að þingið samþykki lög, sem leyfa slíkt, þar sem þó er til þess ætlazt, að ræðismennirnir flytji ekki annað vin hingað, en til sinna eigin afnota. Jeg get ekki heldur annað sjeð, en það sje mikill munur á því, hvort ákvæði þessa frv. eiga að skeytast við bannlögin, eða eins og hjer er ætlazt til, að þetta verði sjerstök lög. Eftir þessu frv. verður ekki betur sjeð, en innflutningur vínfanga sendiræðismanna sje undanskilinn öllu eftirliti umsjónarmanns áfengiskaupa.

Í stuttu máli verð jeg að segja, að 2. gr. frv., eins og nú er hún, sje með öllu óhafandi, og því bráðnauðsynlegt, að breyting fáist á henni; ella á að fella frumvarpið.