01.07.1913
Sameinað þing: 1. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

Þingsetning í sameinuðu þingi

Eiríkur Briem (frsm. 2. deildar):

Önnur deild hafði til meðferðar kjörbrjef þessara þingmanna: Guðmundar Björnssonar, 6. kgk. þm., Hákonar Kristofferssonar,. þm. Barðstrendinga og Guðmundar Eggerz, 2. þm. Sunnmýlinga.

Deildin hefur skoðað þessi kjörbrjef og útdrætti úr kjörbókum Barðastrandarsýslu og Suður-Múlasýslu og hefur ekkert við það að athuga. Þess skal þó getið, að það höfðu skaddazt dálítið 2 innsigli á atkvæðakössum úr 2 hreppum í Suður-Múlasýslu, af því að óvita börn hafa komizt þar að, en innsiglin fyrir lyklunum voru ósködduð; yfirkjörstjórninni var það kunnugt, og hafði hún ekkert við það að athuga. Deildin leggur því til í einu hljóði, að kosningarnar sje allar teknar gildar.

Voru kosningarnar því næst samþyktar með öllum greiddum atkvæðum.