04.07.1913
Neðri deild: 3. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (2521)

4. mál, landsreikningar

Lárus H. Bjarnason:

Mér finst það orka tvímælis, hvort ástæðurnar, sem hæstv. ráðherra (H. H.) bar fram, séu nægilegar. önnur ástæðan var sú, að þriðja skrifstofa stjórnarráðsins væri svo önnum kafin, og hin ástæðan sú, að greiðslur í landssjóð gengju seint.

Viðvíkjandi fyrri ástæðunni get eg ekki séð, að það sé ofætlun fyrir skrifstofuna að hripa upp reikninginn, svo hann komist til endurskoðunarmanna í tæka tíð, enda innanhandar og sjálfsagt að bæta starfskrafta skrifstofunnar, hrökkvi þeir ekki til, annaðhvort með skiftum eða aukningu. Síðari ástæðan er líka fremur léttvæg, því að eftir reglugerðinni á vera búið að borga alt inn í landssjóð í Febrúarlok árið eftir.

Það hefir nú komið fyrir hér í Reykjavík að innborganir jafnvel á mjög stórum upphæðum hafa dregist nokkuð, að eg nú ekki tali um aðra staði á landinu. Landsstjórninni ætti að vera innan handar að kippa þessu í lag. Hún verður að kippa því í lag. Það er embættiskylda hennar.

Annars er það gleðilegt, að það virðist vera farið að ganga upp fyrir Stjórninni að þetta megi ekki svo til ganga.