24.07.1913
Neðri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (306)

67. mál, líftrygging sjómanna

Flutningsm. (Matthías Ólafsson):

Eg skal ekki deila við háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) um lagaskyldu stjórnarinnar til þess að taka til greina þingsályktunartill., sem ekki eru samþyktar nema með 1–2 atkv. mun. Þessi þingsályktunartill., sem hér er um að ræða, var nú líka samþ. með miklum meiri hluta. En það hygg eg að sé þó siðferðisleg skylda stjórnar, að setja sig að minsta kosti svo vel inn í slík mál sem þetta, að hún geti á sínum tíma lagt eitthvað til þeirra. Hann sagði, að reynsluna skorti, en eg get ekki fallist á það. Það eina, sem ekki er reynt, er það, hv að vátryggingarsjóður mundi stoða, ef því meiri slys bæri að höndum. En vonandi er, að slíkt komi ekki fyrir, þar sem allur útbúnaður á þó fyrir sér að batna, — að minsta kosti ekki meiri slys, en á þessum síðustu tímum, sem einmitt hafa verið inir verstu slysatímar. Nú vilja sjómenn fá að borga hærra, en verið hefir, og þá líka að fá meira en þeir hafa fengið, því að þeir vilja, að eftirlifandi vandamönnum sínum geti liðið betur, en nú á sér stað, ef þeirra missir við. Og eg verð að efast um það, og jafn vel mótmæla því, að háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) sé því kunnugri en eg, hverju sjómenn landsins fylgja í þessu máli, enda kemur hvatningin til þessa ekki frá mér, heldur einmitt úr annari átt. Og þeir sem talað hafa hér í dag, hafa sýnt það, að þeir eru málinu hlyntir.

Eg get búist við því, að gerðar verði breytingar við frumvarpið, en hinu treysti eg, að eigi verði raskað aðalgrundvelli þess. Vænti eg svo að það verði látið ganga til 2. umr.