24.07.1913
Neðri deild: 18. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (312)

37. mál, hagstofa Íslands

Einar Jónsson:

Það er að vísu orðin regla hér í þinginu, að setja nefnd í hvert einasta smámál, og má vera að hún sé góð að sumu leyti, en takmörk verða að vera fyrir öllu, og enginn efi er á því, að þessi regla er stundum til tafar, en ekki flýtis; að minsta kosti í þeim tveim tilfellum: að málin séu svo smá og liggi svo ljós fyrir, að þingmönnum sé engin vorkunn að mynda sér skoðun um þau strax, eða hitt, að málið hafi ekkert fylgi í neinum kringumstæðum. Og þegar litið er á öll þessi frv., sem nú liggja fyrir um launahækkanir og ný embætti, þá óska eg fyrir mitt leyti, að þeim yrði ekki einu sinni sá sómi sýndur, að komast í nefnd.

Það þykir nú ef til vill ekki hlýða, að eg dæmi um þetta, til þess séu aðrir færari en eg. En þegar talað er um að stofna ný embætti, og stórkostlega hækkun á launum fjölda beztlaunaðra embættismanna í landinu, þá langar mig til að um leið sé sagt, hvar á að taka gjaldþolið til að bera þetta. Það vita allir, hve margt og mikið þarf að borga, og að altaf er verið að bæta á nýjum og nýjum sköttum og tollum,en ef á að leggja þá á til þess að stofna ný embætti, sem mörgum virðast óþörf, þá er eg ekki samferða lengur.

Mér sýnist svo, að með þessu frumv. eigi að létta allmiklum störfum af stjórnarráðinu, sem það hefir með höndum nú. En þar sem mér er sagt, að margir starfsmenn þess vinni ekki nema stutta stund á dag, þá ætti þeim ekki. að vera ofvaxið að vinna að þessu áfram. Og laun hafa þeir mikið sæmileg, það vita menn, og verður þó betur, ef launahækkanirnar ná fram að ganga. Mér virðist því ekkert viðlit að samþ. þetta frumv., nema þá því að eins, að strykað verði út um leið eitthvað af öðrum embættum í stjórnarráðinu, og skal eg þá ekki draga dul á það, hvað eg álít að fyrst ætti fyrir að verða. Það er landritaraembættið sjálft. Það er varlega í það farandi, að fjölga embættum, meðan ekki er sannað, að við risum undir kostnaðinum við þau. Á það legg eg mesta áherzluna. Því að það má reiða sig á það, að landsmenn lifa fremur fyrir því, þótt slept sé að bæta við þá einhverju nýju embætti, en ef þeir eiga að búa við hungur og fátækt. Og það er engin þörf á að ganga út frá því, hvað embættismennirnir sjálfir telja sjálfsagt að til þeirra sé kostað. Þeir eru t. d. ekki ánægðir, þegar þeir byggja sér hús hér í bænum og víðar, nema , þau kosti þetta 20–30 þús. kr. En aftur á móti byggja bændur góð hús fyrir 5–10 þús. kr. langt upp í sveit. Það má nú nærri geta, hve nauðsynlegir þessir stóru salir eru fyrir fámennar fjölskyldur, og eg vil ekki láta taka tillit til þess, hvað slíkir menn kunna að heimta eða kvarta um.

Eg sé, að í nefndarálitinu er sagt, að kostnaðurinn við hagstofuna verði að eins 4 þús. kr., sem er bygt á skýrslu stjórnarráðsins, og eins hitt, að hingað til hafi störfin, sem hún á að taka við, mest verið unnin sem aukavinna í stjórnarráðinu. En hvers vegna geta þeir ekki það, eins og aðrir menn, sem heilbrigðir eru, haft dálítið lengri skylduvinnutíma og unnið þá þetta sem hér ræðir um. Dagurinn ætti þó að vera jafn langur hjá þeim og öðrum, sem verða að sætta sig við að vinna 12 stundir og þar yfir. Og þeir ættu að gera sig ánægða með það, þegar þeir eru komnir inn í embættin, þó að þeir þyrftu að vinna lengur en svo sem 2–4 stundir á dag. Eg veit ekki, hvort þeir gera það, og bið afsökunar, ef ekki er rétt með farið, en þetta heyri eg sagt.

Eg skal svo ekki þreyta menn með lengri ræðu, en eg mun hvorki ljá þessu frumvarp mitt atkv. til nefndar né 2. umr.