28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (354)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Það er út af því sem háttv. þm. Sfjk. (V. G.) sagði um tillögu til fjárveitingar til ekkjufrúar Valgerðar Jónsdóttur frá Múla, að eg ætla að segja fáein orð. Hann spurði, hvort með þessu ætti að gefa það fordæmi, að öllum þingmannsekkjum skyldi veita eftirlaun. Því er til þess að svara, að slíkt sem hér er farið fram á, hefir verið gert og er gert til þess, að sýna sóma látnum merkismönnum, sem þjóðfélagið á mikið og gott upp að inna, hvort heldur þeir hafa verið þingmenn eða ekki. Hitt dettur engum í hug að mynda fordæmi, sem nái til allra þingmanna. En það get eg sagt háttv. þm. Sfjk. (V. G.), að ef hann gæti gert alla þingmenn að jafnokum Jóns heitins í Múla, þá mundi landið stórgræða á því, þó að veita þyrfti ekkjum þeirra riflegri eftirlaun en hér um ræðir. Að því er snertir eftirlaun úr annari átt, þá held eg að mér sé óhætt að fullyrða, að það sé eingöngu þjóðsaga (Valtýr Guðmundsson: Það er engin þjóðsaga.) og er illa gert að hlaupa með slíkar kviksögur inn á þing, ef maður veit ekki neinn sann á þeim. Að öðru leyti vil eg ekki fjölyrða um þetta mál.

Úr því að eg stóð upp, ætla eg að minnast á annað atriði. Stjórnin hefir farið fram á að henni veitist heimild til að selja gamla prestaskólahúsið. Þetta er arðlaus eign, og sé eg því ekki annað en að full ástæða sé til að stjórninni veitist þessi heimild. Háttv. nefnd hefir felt þetta niður, en tilfærir enga ástæðu. Ef hún hefði ætlast til að hagstofan hefði hæli þar, þá væri það skiljanlegt, en ef hún hefir ekki hugsað sér neina nytsama hagnýtingu hússins, verð eg að álíta rétt, að fallast á till. stjórnarinnar.