29.07.1913
Neðri deild: 21. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (367)

76. mál, landssjóðsábyrgð á sparifé og innlánsfé Landsbankans

Kristján Jónsson:

Það hefir verið borið á einhverja fyrverandi landstjórn, að hún hafi reynst bankanum óhliðholl og sýnt sig óvinveitta honum. Að því er til mín kemur, neita eg því algerlega, að það eigi við nokkur rök að styðjast, enda væri slíkt ólíklegt um mig, sem hefi starfað við nefndan banka í 12 ár og varið kröftum mínum í þarfir hans með fullri alúð. Eg býst við að þess í aðdróttun eigi við það eitt að styðjast, að eg tók ekki lán, það sem heimilað var með lögum 1909 eða eftirstöðvar þess, 500.000 kr. til handa Landsbankanum. Mér tókst ekki að fá þetta lán þann tíma sem eg var ráðherra, vegna þess að þá var yfirleitt mjög erfitt að útvega lánafé erlendis, og svo einnig fyrir þá sök, að eg hafði þá með höndum aðra stóra lántöku, nefnilega lán til hafnargerðar Reykjavíkur. Að öðru leyti hefi eg vissulega ekki brugðist Landsbankanum né vonum þeim, sem forstjórar hans með sanngirni gátu gert sér.

Hvað það snertir, að stjórnin hafi ekki haft neitt fé á vöxtum í Landsbankanum árið 1912, þá mun það hafa komið af því, að féð hafi jafnótt veðið brúkað upp og eigi verið handbært, svo að það yrði lagt í sparisjóð eða banka. (Lárus F. Bjarnason: Stjórnin ávaxtaði þó fé í Íslandsbanka). Það hefir sjálfsagt verið póstávísanafé. Landstjórnin hefir aldrei á nokkurn hátt sýnt Íslandsbanka nein vilkjör fremur en Landsbankanum. Sem sagt kannast eg alls ekki við að eg hafi sýnt bankanum nokkra fæð, ef svo mætti segja.

Úr því að eg stóð upp, vil eg segja álit mitt á frumvarpinu, sem hér liggur fyrir. Eg vil þá fyrst minna á, að það eru engin lög til, sem knýja landssjóð til að borga fyrir bankann; engin lög, er geri landssjóði að skyldu að ábyrgjast innlánsfé bankans eða aðrar skuldbindingar hans.

Um það er ekkert ákveðið með lögum. En annað mál er það, ef sú ógæfa kæmi fyrir Landsbankann, að honum væri þannig stjórnað, að hann hætti að geta staðið í skilum, hvort þá væri ekki rétt og sæmilegt að landssjóður hlypi undir bagga og borgaði það sem bankinn gæti ekki greitt, af innlánsfénu að minsta kosti. Eg tel það jafnvel líklegt, að svo færi, ef slík vandræði skyldi koma fyrir, sem ekki er ráð fyrir gerandi. En nú er farið fram á að leggja þessa ábyrgð með lögum á landssjóðinn. Og þá verð eg að segja það, að árið 1886–87, þegar sparisjóður Reykjavikur rann inn í Landsbankann, mundi þetta hafa þótt ólíkleg fyrirsögn; þá datt engum manni annað í hug, en að bankinn gæti sjálfur ábyrgst og ætti sjálfur að ábyrgjast sinn sparisjóð og innlán þau sem hann tók á móti. Og eg get ekki skilið þetta, sem hér er farið fram á, öðruvís en sem fullkomna þrotabúsyfirlýsingu af bankans hálfu.

Eg hygg að þessi og þvílík ráðstöfun muni hafa ískyggileg áhrif út á við fyrir lánstraust landsins, eigi landssjóður að ábyrgjast alt innlánsfé bankana, hve mikið sem það kann að vera. Og án tillits til þess, að af hana hálfu er eigi hægt að hafa nægilegt eftirlit með meðferð á því, þá leggur það sig sjálft, að þetta hlýtur að verða til þess að veikja mjög lánstraust landsins út á við. Eg er hræddur um að það yrði sagt eitthvað þessu líkt: Þarna hvílir á landinu, landssjóði, svo og svo mikil ábyrgð, sem enginn getur dæmt um, hvaða afleiðingar kunni að hafa, eða hve mikil sé í raun og veru. Og þessu verður ekki mótmælt. Ef þetta frumvarp verður að lögum, þá getur það orðið til þess að gereyðileggja lánstraust landsins, og þess vegna verð eg að samsinna hæstv. ráðherra (H. H.) um það, að ef aðalákvæði frumvarpsins á að fá framgang, þá verði landssjóður um leið að tryggja sig með því móti, að bankanum sé fyrirlagt að hafa að minata kosti 20% af geymslufé sínu í tryggum og fljótseljanlegum verðbréfum, og er þá alt aftur komið í sama farið og nú er. Það má vitanlega búa svo um, að ekki standi verulegur háski af því að samþykkja þetta frumvarp, en þá sé eg ekki að þörf sé fyrir það, né heldur að það geri neitt gagn. Og bankastjórninni á að vera vorkunnarlaust að stýra bankanum án þessara úrræða, sem hér er farið fram á.