30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (395)

7. mál, fasteignaskattur

Ráðherrann (H. H.):

Eg skal ekki halda langa ræðu. Eg hefi þegar skýrt afstöðu mína við 1 umr., og mótbárur þær sem fram hafa komið gegn frumvarpinu, hefir háttv. framaögum. meiri hl. (Ól. Br.) flestar hrakið með sinni ítarlegu ræðu, og get eg skírskotað til hennar að mestu leyti.

Eg vil enn og aftur minna á það, að þegar þingið skipaði milliþinganefndina 1907, til þess að koma fram með tillögur um skattamálin, þá var það ekki til þess að auka tekjur landssjóðs að neinum mun með auknum föstum sköttum. En að því er föstu skattana snertir, voru flestir sammála um það, að brýna nauðsyn bæri til að breyta núverandi löggjöf um þá., af því að þau lög væri úrelt og skattarnir kæmi ekki rétt niður. Sérstaklega töldu menn tekjuskattinn koma ójafnt niður, lenda aðallega á mönnum, sem hafa föst laun, en sleppa mörgum, þótt þeir hafi í raun og veru mikla meiri tekjur. Húsaskatt sleppa og margir við, af því að allar veðskuldir eru dregnar frá, en þær eru oft og tíðum ekki nema á pappírnum. Sömuleiðis hefir verið óánægja með ábúðar- og lausafjárskattinn, og sí og æ hefir hefir það heyrst hér á þingi, að öllu þessu þyrfti að hrinda í lag. Annað mál er það, á hvern hátt það verði bezt gert. Það er alt af álitamál. Þjóðinni hefir gefist kostur á að átta sig á þeirri spurningu. Árið 1909 voru frv. milliþinganefndarinnar lögð fyrir þingið til athugunar og voru birt í blöðunum. Aftur voru þau til athugunar á þingi 1911, því að þá voru ýmis af frumvörpum nefndarinnar gerð að lögum Nú virðist svo, að árið 1913 ætti þjóðin að vera búin að fá nógan tíma til þess að íhuga þessar tillögur, sem svo lengi hafa legið tilbúnar, og að það hafi verið skylda stjórnarinnar, að láta nú ekki dragast lengur að gefa þinginu kost á því, að greiða atkv. um málin. Þess vegna tel eg það með öllu ástæðulausar mótbárur hjá andmælendum þessa máls að segja nú, að verið sé að lauma þessu yfir þjóðina að henni fornspurðri og demba á hana óvæntum Sköttum.

Þessi frumvörp eru engin ókunn nýsmíði. Meginatriði þeirra eru eða ættu að vera öllum kunn, sem yfirleitt hugsa um slík mál, og breytingar, þær sem stjórnin hefir gert á frumvörpunum, eru ekki svo gagngerðar, að þær geri frumvörpin nýstárleg. Hitt er og rangt, að hér sé verið að bæta við nýjum skattabyrðum. Hér er að eins að ræða um breyting á núverandi föstum sköttum, tvo nýja skatta í stað fjögra gamalla, án þess að svifta með því landssjóð neinum tekjum, en einnig án verulegrar aukningar á skattbyrðinni, sem aðallega er reynt að láta skiftast réttlátar niður. Þar sem háttv. framsögum. minni hl. (gr. D.) sagði, að fasteignaskatturinn komi sérstaklega þungt niður á einstökum mönnum, þá er það misskilningur. Auðvitað má segja um alla skatta, að þeir komi þungt niður á þeim, sem mikið eiga að gjalda, en þessi skattur gerir það ekkert frekar en aðrir. Hann mintist á, hve þungt skatturinn kæmi niður á sinni eigin stétt, og var að tala um 50 kr., sem hann yrði að greiða. En þetta er misskilningur, því að það eru eigendurnir, sem greiða skattinn. og yfir á núverandi leiguliða verður ekki velt nema 1/8 skattsins eftir þessu frv. Háttv. þm. er ekki eigandi prestssetursins, heldur er það ið opinbera, sem teljast verður eigandi; hann er að eins nothafi.

Í frumv. skattamálanefndarinnar var gert ráð fyrir, að öllum skattinum yrði velt yfir á leiguliðana. Ef það hefði verið tekið upp óbreytt, þá hefði mótbára háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) við nokkur rök að styðjast. En nú var það ekki gert, og því fellur mótbáran um sjálfa sig.

Háttv. sami þm. (Kr. D.) lagði áherzlu á það, að ranglátt sé að heimta skatt af öllum fasteignum án tillits til veðskulda, sem á þeim hvíla. Hann hefir ekki tekið eftir því, að í tekjuskattsfrumv., sem flutt er í sambandi við þetta, er mælt svo fyrir, að allar rentur af skuldum gjaldanda skuli dregnar frá tekjunum áður en skattur er lagður á þær. Þetta jafnar hallann, þegar um nokkurar verulegar upphæðir er að gera. Þegar um lága tekjuupphæð er að ræða, er skattprósentan auðvitað svo lág, að ekki munar verulega um það í skattsupphæðinni, þó að vextir komi til frádráttar frá inni skattskyldu upphæð. En þá er venjulega heldur ekki um stórar fasteignir að ræða, sem svo miklar veðskuldir hvíli á, að fasteignaskatturinn af þeim nemi verulegri upphæð, þar sem hann að eina er 2 af þúsundi virðingarverðs. Stórar fasteignir, með háum veðskuldum, er nokkuð veruleg fasteignarskattsupphæð kæmi á, eru venjulega að eins í höndum þeirra manna, sem mikið hafa umleikis og háar brúttótekjur hafa, en þá hækkar líka skattprósentan, svo að miklu meira munar um frádráttinn þegar vaxtaupphæðin dregst frá inni skattskyldu upphæð.

Eins og eg gat um, sá eg ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Háttv. framsögum. meiri hl. nefndarinnar (Ól. Br.) hefir rækilega tekið til íhugunar mótbárur, þær sem eru í nefndaráliti minnihlutans og komið hafa frá öðrum háttv. þingmönnum. Eg skal að eins geta þess, að eg akildi ekki dæmið, sem hv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.) tók. Það getur vel verið mér að kenna, því eg heyrði ekki glögt til hans. En eg er hræddur um að honum hafi verið óljós grundvöllurinn fyrir útreikningi tekjuskattsins. Það er ómögulegt að bera það saman, hvernig skatturinn kemur niður á tveimur mönnum, nema menn viti tekjur þeirra beggja.

Þetta er svo merkilegt mál, að það væri æskilegt að öllum þingmönnum gæfist kostur á að greiða atkvæði um það. En nú er einn nefndarmannanna, sem mikið hefir athugað þetta mál, og mikinn áhuga hefir á því, forfallaður, og er ekki hér í salnum. Eg vil þess vegna skjóta því til háttv. forseta, hvort hann vill ekki taka málið út af dagakrá, og þá um leið málin nr. 2–7 á dagskránni og fresta umræðunni þangað til þessi háttv. nefndarmaður getur verið viðstaddur. Það getur farið svo, að atkvæði hana ráði því, hver úrslitin verða.