30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (410)

7. mál, fasteignaskattur

Pétur Jónson:

Það hefir komið fram ágreiningur út af því, hvort sá skattur, er frumvarpið ræðir um, elgi að hvíla á landsdrotni að öllu leyti eða á leiguliða að nokkru. En með þessu frv. er ekki farið fram á að lögð verði á landsmenn önnur gjöld en þau sem þeir hafa greitt áður á annan hátt. Og þau gjöld, sem létt er af jafnframt og þessi skattur kemst á, eru og hafa verið greidd af leiguliðum. Þau eru orðin hluti af jarða-afgjöldum þeirra, og hvíla því í raun réttri á jarðeignunum, eða sama sem eigandanum, þó af praktískum ástæðum leiguliðarnir hafi greitt þau. Það er því sanngjarnt að leiguliðarnir greiði þau gjöld, sem nú koma í stað inna gömlu, eins og skattanefndin fyrverandi lagði til, á meðan þeir samningar standa, sem í gildi eru þegar breytingin kemst á. Og því síður er á þeirra hluta gert með því, að greiða helming nýja skattsins.

Vildi eg svo segja fáein orð út af ræðu háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Hann hefði ekki átt að tala svona hátt eins og hann gerði. Hann hefði einmitt átt að tala lágt í þessu máli. Hann vildi véfengja að áætlun mín um þinglýstar skuldir væri rétt. Eg kannast við, að sú áætlun var ekki nákvæm. En hv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) hefir nú upplýst, að þingl. skuldir á húsum nemi eftir skýrslunum rúml. 50%. Nú er það margsagt, að þar sé alveg röng uppgjöf, því upphafleg lánsupphæð sé tekin til frádráttar. Það var því ekki fjarri sanni þó maður segði, að þær virkilegu skuldir næmu til jafnaðar 1/4–1/3 af verði húsanna.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) rangfærði orð mínum vilja kjósendanna. Sagði eg aldrei annað en það, að kjósendur í Suður-Þingeyjarsýslu megi takast til greina alveg eins og aðrir kjósendur. Já, og það heldur fremur í þessu máli, því þeir hafa áreiðanlega hugsað meir um það en aðrir kjósendur. Heima hefi eg annars bók eftir einn hinn mesta skattafræðing Dana, sem sannar mitt mál. Gæti eg lánað háttv. þm. hana. Sömuleiðis gæti eg lánað honum nefndarálit norskrar milliþinganefndar, þar sem beztu skattfræðingar Norðmanna sátu, sem sannar minn málstað. Fleiri bækur eftir merkustu menn í þessum efnum gæti eg Vísað honum á. En reyni hann að útvega eina einustu eftir merkan mann í þessum fræðum, sem gangi í móti minni skoðun.

Forseti gat þess, að 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) hefði mælst til þess að atkvæðagreiðslunni um þetta mál yrði frestað til morguns, vegna þess að hann hefði ekki getað komið á fund í dag vegna lasleika. Áleit forseti, að hann gæti ekki tekið þessa beiðni til greina, vegna þess að þá yrði svo oft að draga atkvæðagreiðslur mála af sömu ástæðum.

var því næst gengið til atkvæða.