05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í C-deild Alþingistíðinda. (540)

50. mál, vegir

Bjarni Jónsson:

Eg á hér eina viðaukatill. og vildi því tala nokkur orð um hana, en það er líklega rétt, að þau orð séu fá, því að eg sé að það eru mest stólar, sem talað er við hér í deildinni.

En fyrst skal eg þó geta þess, að eg tel þetta frumv. sanngjarnt, og álít að hér standi líkt á og t. d. um flutningabrautina frá Akureyri fram að Grund, og man eg ekki betur en að sú braut væri tekin upp í fjárlög og það mál flutt af allmiklu kappi af sumum. Réttast væri, að Reykjavík og Hafnarfjörður til samans kostuðu viðhald á þessum vegi, ef landssjóður gerir það ekki. En svo svo eg snúi mér að viðaukatill., þá fer hún fram á það, að akfær vegur verði lagður frá Höskuldsstöðum í Lagárdal og fram undir heiðina að Lagalæk, þar sem landssjóðsvegurinn tekur við. Þetta er ekki löng leið, ekki nema tveggja tíma reið. Vegurinn yfir Lagárdalaheiði er góður akfær vegur, og til þess að hann verði að notum, þyrfti einnig að gera veg á þessum spotta. Þörfina fyrir þennan veg má sjá á því, að kaupafólk og námafólk, sem kemur héðan að sunnan, fer nú orðið, þegar það getur, inn í Hvammafjörð og þar norður yfir, jafnvel hundruðum saman. Og þá þyrfti það nauðsynlega að hafa akveg alla leið, til þess að það gæti ferðast sem bezt, ódýrast og fljótast frá skipi.

Eg flyt þessa tillögu samkvæmt ósk kjósenda minna, en þó hafa þeir engan sérlegan hagnað af þessu, nema ef vera skyldi óbeinan, ef það yrði til þess, að skip gengi. þar fremur inn. Annars er umferð þessa fólks þeim ekki til hagræðar, því að þar er engin gistisala, og þeim væri það ef til vill hagur, meira að segja, ef að það kæmist sem fyrst leiðar sinnar. (Jón Ólafsson: Þeir læra að selja). Nei ! Þeir eru menn gestrisnir.

Eg endurtek það, að nú fer þorri manna um þennan veg, og það er hvorki erfitt að leggja hann né halda honum við, svo að eg vona að allir verði á eitt sáttir um það, að lita á þá nauðsyn, sem hér er á að gera þennan þjóðvegarspotta.