05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í C-deild Alþingistíðinda. (589)

58. mál, hvalveiðamenn

Kristinn Daníelsson:

Af því að eg var lengi nákunnugur hvalveiðamönnunum á Vesturlandi, kann eg ekki við að láta þetta mál fara lengra án þess að láta í ljósi þá skoðun mína, að eg álít það óþarft., Eg veit að margir eru á móti því að hvalveiðamennirnir reki hér atvinnu sína, vegna þess, að þeir álíta, að það hafi skaðleg áhrif á fiski- og síldargöngur. Eg skal nú ekki fara langt út í það mál, en skal að eins lýsa því yfir, að á vesturlandi voru menn sannfærðir um, að enginn slíkur skaði hlytist af hvalveiðamönnunum.

Því var fleygt hér fram síðast, að hvalveiðamennirnir gerðu landinu lítið gagn Eg hygg þvert á móti að þeir hafi gert landsmönnum afar-mikið gagn. Þeir hafa verið uppbyggilegir menn í héraði og ágætir borgarar; þeir hafa greitt mikið fé í landssjóð og sveitarsjóði og á annan hátt veri stór-nýtir. Nú heyrist mér öllum bera saman um, að þeir séu á förum, og hafa því sumir sagt í spaugi, að frv. ætti að heita frv. um fyrverandi hvalveiðamenn. Mér finst því óviðkunnanlegt að vera að sparka í þessa menn, nú þegar þeir eru á förum. Þeir hafa að margra áliti verið uppbyggilegir menn og látið mikið af mörkum til landsmanna. Eg vildi að eins lýsa yfir þessari skoðun minni, enda þótt eg þykist vita, að það komi fyrir lítið, hvort eg geri það eða ekki.