12.08.1913
Neðri deild: 32. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í C-deild Alþingistíðinda. (787)

29. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Halldór Steinsson:

Með lögum, sem sþ. voru á síðasta þingi, var stjórninni gefin heimild til þess að taka lán til símalagninga, þeirra sem gert er ráð fyrir í þessum lögum. Þá var jafnframt ákveðið, að það fé skyldi vera fyrir utan landsreikninginn, en tekið fram, að vextir og afborganir af því skyldu tekin upp í fjárlögin, án þess að vera talin með rekstrarkostnaði símanna. Í þessu kemur fram ósamræmi, og hefir því stjórnin lagt frumvarp fyrir þingið, þar sem farið er fram á það, að þessir vextir og afborganir verði framvegis teknir af tekjuafgangi landsímanna. Eg held, að þetta hafi vakað fyrir þinginu 1912, þótt hitt standi í lögunum. Eg felli mig því vel við þetta frumv. eins og það liggur fyrir frá Stjórnarinnar . hendi Það er að vísu satt, að með þessu dregst nokkuð mikið frá tekjuafgangi landsimanna., sem ella yrði varið til símalagninga á 3. flokks símum, en nú eru tekjurnar orðuar svo miklar,að þess gætir ekki mikið. En þótt eg sé meðmæltur frumv. stjórnarinnar, þá er öðru máli um það eins og háttv. Ed. hefir nú gengið frá því. Hún hefir gert á því miklar breytingar, sem eg alls ekki get fallist á. Eg á við þær 2 aðalbreytingar, að tvær stórar álmur, frá Sauðárkróki til Siglufjarðar og frá Ísafirði til Patreksfjarðar, hafa verið færðar úr 2. flokki upp í 1. flokk. Þetta eru svo stórvægilegar breytingar, að þær raska öllu samræmi í símalögunum frá síðasta þingi, og ef þær yrðu samþyktar, mundi það leiða til nýrra og nýrra breytinga ár frá ári unz engin heil brú yrði eftir í lögunum, og yrði ómögulegt að gizka á, hvernig þau litu út eftir nokkur ár, því það mundi þá fara eftir því, hve duglegur hver einstakur þingmaður yrði í því að toga símann fyrir sitt kjördæmi.

Þá hefir háttv. Ed. gert breytingu á orðun 9. greinar frá því sem var í stjórnarfrumv., en út í það skal eg ekki fara nú. Eg vona að málið verði sett í nefnd, og að hún sníði af því agnúana frá Ed.