13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í C-deild Alþingistíðinda. (827)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Ráðherrann (H. H.):

Eg verð að segja, að eg bjóst hálfpartinn við þeirri mótbáru frá hinni háttv. fjárlaganefnd gegn stjórnarfrumv., að tekjurnar væru fremur hátt áætlaðar, því þær voru settar tiltölulega hærra nú, en nokkurn tíma áður. Eg var jafnvel í nokkrum vafa um það um hríð, hvort forsvaranlegt væri að áætla þær svona hátt, en samt varð það úr að eg, eftir því sem á stóð, dirfðist að koma með þá áætlun, sem liggur fyrir.

Nú sé eg að það er langt frá, að nefndinni þyki tekjurnar of hátt áætlaðar, að hún hefir hækkað áætlun stjórnarinnar í 2. gr. frumv. um 128,000 kr. Aðalástæðan til hækkunarinnar er vörutollurinn, sem nefndin hefir áætlað 100,000 kr. hærri á fjárhagstímabilinu, en stjórnin hefir gert. En sá tollur er alveg óreyndur enn, því hann hefir ekki verið í gildi nema hálft ár, og þótt svo virðist eftir símskeytum frá sýslumönnum út um land, að hann hafi verið nokkru hærri en við var búist þessa fyrstu 6 mánuði, þá er það fremur lítil undirstaða til að byggja á stóreflis áætlanahækkun. Grundvöllurinn undir áætlun stjórnarinnar um þetta efni er sumpart . . . . .? þær, sem gerðar voru um þingtímann 1912, og í öðru lagi réð stjórnin sérfróðan mann, cand. polit. Georg Ólafsson, til að athuga þetta af nýju eftir þeim skýrslum og skilríkjum, er fengist gátu, grundvallað eftir innflutningsmagninu. og reikna út, hver vörutollurinn mundi verða. Niðurstaða hans var, að tollurinn mundi nema tæpl. 250,000 kr. á ári, eftir því sem inn hefir fluzt síðustu árin, sem skýrslur eru til fyrir. Það er að vísu eigi ólíklegt, að tollurinn fari eitthvað upp úr þessari áætlun, en að færa hann upp í 350,000 kr. á ári, eins og nefndin vill, álít eg óvarlegt.

Önnur breytingartillaga nefndarinnar við að telja afborganir af útlánum viðlagasjóðs tekjumegin; finst mér ekki skifta miklu máli. Hefir verið gerð grein fyrir því í athugasemdunum aftan við frumv., hvers vegna þessi upphæð var sett í frumv. Hún var ekki sett þar í því skyni, að upphæðin skyldi verða eyðslufé, heldur til þess að auðvelt væri að sjá, hve mikið mætti ætla viðlagasjóði til útgjalda í lánum eða tekjuhalla. Þetta er ið eina fé, sem viðlagasjóður á handbært til slíkra hluta, og verður ekkert meira fyrir það, þó að slept sé að nefna upphæðina í fjárlögunum sjálfum.

Þegar tekið er tillit til þess, hve tekjuáætlun stjórnarinnar er há frá upphafi, virðast hækkanir, þær sem nefndin leggur til, vera í rífara lagi. Tekjuhallinn er því í rauninni ekki eina og háttv. framsögum. sagði, 142,000 kr., heldur miklu meiri, ef varlegri tekjuáætlun væri væri fylgt. Þetta væri þó ekki svo ægilegt, ef von væri á einhverjum auknum tekjum í skarðið. En það hefir verið séð fyrir því á þessu þingi, að möguleikarnir til þess féllu burt, þar sem skattafrumv. var frestað til þess að þjóðin gæti áttað sig á þeim til næsta þings.

Ef nú við þennan tekjuhalla bætast um 200,000 kr. til að styðja Landsbankann og ef til vili einhver fleiri útgjöld til hans, virðist liggja í augum uppi, að gera verður ráð fyrir nýrri lántöku, ef ekki verður slept því meiru af inum auknu útgjöldum, sem bæði in háttv. fjárlaganefnd og aðrir vilja leggja á næsta fjárhagstímabil.

Það á eigi við að fara út í einstök atriði við þessa umr. En eg ætla að eins að geta þess, að eg hefði getað sætt mig við tillöguna um, að fella burt fjárveitinguna til brúarinnar á Eyjafjarðará, ef hún hefði verið sprottin af nauðsyn til þess að spara þessa upphæð. En það er nú síður en svo. Því í staðinn fyrir Eyjafjarðarárbrúna setur nefndin aðra ennþá dýrari brú á Jökulsá á Sólheimasandi. Og ekki nóg með það, að sú brú er dýrari; það er annað enn; hún er eftir sögn verkfræðinga landsins hreinasti vonargepill, fullkomið áhættufyrirtæki, sem getur verið sama sem að fleygja peningunum í sjóinn. Að taka peninga frá öruggu nauðsynjaverki og leggja þá í glæfrafyrirtæki, það tel eg misráðið. Að hér sé um slíkt áhættufyrirtæki að ræða, byggi eg, sem sagt, á umaögn landsverkfræðingsins, sem spurður var um málið. Hann taldi svo miklar líkur til þess, að áin spýtti brúnni af sér aftur fljótlega, að hann kvaðst aldrei sem verkfræðingur geta gert tillögu í þá átt, að hún væri bygð; ef ætti að byggja þá brú, yrði það að vera öllum ljóst fyrirfram, að teflt væri á tvær hættur, og að um verk væri að ræða, sem verkfræðin yrði að ráða frá að leggja peninga í. Það virðist því ekki vera ástæða til að leggja fé í slíkar tilraunir meðan fjárhagurinn er ekki betri en hann er.

Að öðru leyti skal eg að eins minnast á, að mér líka ekki vel tillögur nefndarinnar um skáldastyrkina. Eg ætla ekki að fara nákvæmlega út í það nú. Vona eg að háttv. nefnd geti komið sér saman um viðstjórnina, að slaka til, svo kostirnir verði aðgengilegri.