13.08.1913
Neðri deild: 33. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í C-deild Alþingistíðinda. (847)

81. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Eggert Pálsson:

Eg hélt, satt að segja, að háttvirtur þingmaður Ak. (M. Kr.) mundi ekki telja sér það meir en svo fært, að standa upp til þess að slá sig til riddara á mér. Eg heyrði að hann furðaði sig á því, að eg vildi hnekkja ósönnum áburði. Hann furðaði sig ennfremur á, hvaða skoðun eg skyldi hafa í skattamálunum. Með öðrum orðum, mér skildist hann furða, sig á því, að nokkur maður skyldi hafa sjálfstæða skoðun í nokkru máli — líklega af því að hann finnur enga slíka hjá sjálfum sér.

Háttv. þm. ætti ekki að dyljast það, að hægt væri að koma fram vantraustsyfirlýsingu á stjórnina. Ef þingmaðurinn vill með óaðgætni sinni vinna að því að eyðileggja ið litla traust sem hún á enn þá til. (Magnús Kristjánsson: Á að kaupa þingmanninn?). Nei! En ástæður geta legið til, að hægt geti orðið að greiða vantraustsyfirlýsingu atkvæði með góðri samvizku og af sannfæringu. En svo er ástatt fyrir mér, að eg fylgi ekki öllum tillögum flokka míns blint, í hverju sem er. Það má háttv. þm. sem öðrum vel vera kunnugt. Eg hefi fært fram skýrar ástæður fyrir atkvæði mínu í skattamálunum og þær hafa verið teknar gildar af flokkabræðrum þingmannsins, svo að hann getur því einnig með góðri samvizku gert ið sama, og það því fremur ef satt er, sem háttv. þm. segir, að honum sé fremur hlýtt til mín. Eg tók það fram, að mér væri ekki kunnugt um neina flokkssamþykt í þá átt að drepa þessi frumvörp. Og við það stend eg. Eg veit, að hér eru svo margir menn, sem þekkja mig og taka þessi orð mín gild, hvað sem háttv. þm. Ak. (M. Kr.) segir.

Orð háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) til hv. 1. þm. S.-Múl, (J. Ól.) í sambandi við akattafrumvörpin voru ekki á neinum rökum bygð. Þeim vildi eg hnekkja með atkvæðagreiðslu minni við 2. umr. skattafrumv., enda fleytti það málinu þá til 3. umr. En hitt hafði eg þá þegar tekið fram, að eg mundi ekki greiða því atkvæði út úr deildinni. En þótt háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) greiddi þá ekki atkvæði með frumvarpinu ber eg enga ábyrgð á, enda tel eg það ekkert vítaverðara af honum, þótt hann við 3. umr. greiddi ekki atkvæði um frumvarpið, heldur en háttv. þm. 2. þm. Húnv. (Tr. B.), skyldi greiða atkvæði með því eftir því sem afstaða hans virtist vera við 2. umr. málsins.

Eg skal svo ekki orðlengja þetta frekara. Mér finst háttv. þm. Ak. (M. Kr.) ekki farast að tala djarfmannlega um flokksfylgi, þar sem það er alkunnugt, að hann hefir staðið upp til að verja gerðir stjórnarinnar í svo að degja hverju einasta smáatriði, án þess að eg skuli nokkurn dóm án það leggja, hvernig honum hafi í hverju einstöku tilfelli tekist það.