16.08.1913
Neðri deild: 36. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í C-deild Alþingistíðinda. (990)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Eg skal reyna að vera stuttorður. Hv. þm. Ak. (M. gr.) vildi endilega fá brú á Eyjafjarðará nú þegar, og færði margar ástæður fyrir því, hve sú brú er nauðsynleg. Það var nú óþarft gagnvart mér og nefndinni. Hér er að eins um það að gera, að brúin bíði eitt fjárhagstímabil. Á hverju einasta þingi eru margar beiðnir, sem fram koma, um að brúa ár. Það er ekki hægt að gera alt í einu, þar er allur galdurinn.

Víðvíkjandi vita á Ingólfshöfða er það að segja, að það er rétt, sem háttv. þm. N.-Þing. (B. -Sv.) sagði, að ekki væri hægt að bera saman Meðallandsvitann og hann Bæði er að Meðallandsvitinn er meira en 5-falt dýrari, og svo mundi rekstrarkostnaðurinn við hann. verða 6 fali meiri.

Háttv. þm. N.-Þing. vildi gera nokkuð mikið ár, hve kostnaðurinn við stjórn vitamálanna væri orðinn mikill. En umsjónarmanni vitanna er ekki ætlað að gera meira en að hafa umsjón með þeim. Hirðing vitanna er vandasamt verk og afar áríðandi, því að leiðarljós, sem bregzt, er miklu verra en ekkert ljós. Eftirlitið þarf því að vera ríkulegt og örugt, ef hirðingin á að vera nægilega trygg.