04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

86. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Björn Kristjánsson:

Það er alveg rétt hjá háttv. framsögumanni, að hafnlaust er alla leið með suðurströnd landsins frá Reykjanesi til Hornafjarðar, og Þorlákshöfn er eina neyðarhöfnin fyrir báta, er sjó sækja frá Eyrarbakka og Stokkseyri. Það er líka rétt hjá honum, að menn eru farnir að taka upp mótorbátaútveg á þessum slóðum, og þeir geta enn síður notað þessa neyðarhöfn en opnir bátar. Eg kannast við, að þetta er hið mesta nauðsynjamál, og það er ekki vegna þess, að eg neiti því, að eg legst á móti málinu í þetta sinn. En málið er svo illa undirbúið, að eg er hræddur um, að árangurinn af því mundi ekki ná tilgangi sínum. Það eru sem sé ekki sett nein skilyrði eða takmörk fyrir því, hve mikils eigendur landsins geti krafist í gjald af mönnum þeim, er leyft er að hafa uppsátur þar. Áður fyrr var það altaf svo, að sami ákveðni taxtinn var á ári hverju fyrir uppsátur. En síðan landið lenti í nýjum höndum, þá hefir það hækkað að mun og jafnvel verið heimtaður heill bátshlutur í uppsátursgjald. Að takmörk fyrir þessu vantar alveg, veldur því, að eg í bráðina verð að leggjast á móti málinu, hversu mikið, sem mig langaði til að vera því fylgjandi. Færi frumvarpið fram á það, að landið keypti þessa eign, þá gæti eg verið því fylgjandi. Staður, eins og Þorlákshöfn, á að vera opinber eign, annaðhvort sýslunnar eða landsins. Þegar Jón gamli í Þorlákshöfn seldi jörðina, var gefið fyrir hana 32 þús. krónur — og þótt landið yrði að kaupa eitthvað dýrara en það, álíti eg það ekki frágangssök. Auðvitað væri 70–80 þús. of mikið, en það er beinlínis lífsskilyrði, að þetta verði opinber eign áður verður ekkert að gert í þessu efni. — Eg lét spyrja aðaleiganda jarðarinnar að því í vor, hvort jörðin væri föl. Hann kvað svo vera. Var honum þá bent á það, að bjóða landinu hana til kaups á næsta þingi, í stað þess að sækja um styrk til hafnargerðar þar.

Hann mun hafa látið í ljós, að hann væri fús til þess. Síðan væri sjálfsagt að gera þar góða höfn. Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að vinda þyrfti bráðan bug að þessu fyrirtæki, vegna þess, að nú væri hægt að ná í hafnarverkfræðinga hér á landi til þess að vinna hafnargerðina. Eg get nú ekki betur séð, en að málið megi vegna þessa bíða næsta þings, því að vitanlegt er, að Reykjavíkurhöfn verður ekki búin á næsta ári, svo að ekki þurfi að verða vandkvæði á þessu. Sem sagt er eg málinu hlyntur, en aðeins með þessu skilyrði, sem eg hefi getið um.