21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

9. mál, markalög

Jóhann Eyjólfsson:

Hugmyndin um, að koma á fastri reglu og föstu skipulagi á sauðfjármörk hér á landi, hefir átt einkennilega örðugt uppdráttar. Meiningin með þessu frumvarpi var sú, að reyna að koma meira skipulagi en áður hefir verið, á sauðfjármörk hér á landi. Margir hafa fundið til þess, að ilt er að koma fé til skila, vegna ruglings, sem er á mörkunum, vegna námarka og vegna sammarka.

Það er ekki ávalt gott, að vera fljótur að draga sundur fé í stórri rétt, eins og t. d.. Þverárrétt, þar sem fé ægir saman úr Mýra- Borgarfjarðar Snæfellsness- Stranda og Húnavatnssýslum, og það er ekki einungis í réttum, sem menn þurfa að draga sundur fé, heldur líka á næstum því hverjum einasta bæ á landinu. Væri komið á betra skipulagi um sauðfjármörk, mundi mikill tími sparast og auk þess ekki eins hætt við, að fé færi til óskila; flestir á sveitaheimilum mundu þekkja sýslumarkið og allir hreppsmarkið.

Það vita allir, að mörk eru nú í hinni mestu óreiðu í sýslunum. Enginn veit, hvaða mark tekið er upp í hinum sýslunum. Fjöldi manna eiga sammerkt ef þeir eru sinn í hverri sýslu og jafnvel þótt þeir sé í sömu sýslu, í Strandasýslu eiga 20 menn alveg sammerkt.

Allir vita það, að ekki mun auðvelt að finna bók í stóru bókasafni, ef ekki er til neitt »registur« yfir bækurnar. Alveg sama máli er að gegna með mörkin. Það er ekki gott að átta sig á þeim, ef þau eru öll í ruglingi.

Sá maður, sem á þessa hugmynd, sem eg tek upp í þetta frumv., var Arnbjörn bóndi á Ósi í Húnavatnssýslu. Hann skrifaði, eða lét skrifa, um þetta mál í eitthvert blað, eg man ekki hvert. Þá fóru menn fyrst að veita þessu eftirtekt. Margir sáu, að hér var um verulegar umbætur að ræða.

Sá, sem þar næst tók málið að sér, var Hjálmur alþm. Pétursson á Hamri, hann hafði mikinn áhuga fyrir því. Hann skrifaði ítarlega um það í Þjóðólf og gerði þar að auki mikið til að sýna fram á nytsemi þess, bæði á mannamótum og í heimahúsum við gesti sína. Ekki flutti hann samt málið inn á þing, enda minnir mig fastlega, að hann væri hættur þingstörfum þegar þessi uppgötvun fæddist í höfði hins húnverska bónda. Síðan hefir verið skrifað margt með því, en eg man ekki eftir neinni grein, sem eg hefi séð á móti þessari hugmynd.

Samt sem áður virðist vera mjög erfitt að sannfæra menn um nytsemi þessarar hugmyndar. En svo er líka um margt nytsamt mál, að það þarf langan tíma og mikla baráttu til þess að koma því í framkvæmd.

Eg hefi átt tal við marga um þetta mál og leitað eftir ástæðum á móti þessu máli, en eg hefi ekki fundið neina, sem mér finst að nokkru nýt. Helzt finst mér, að eg geti tekið tillit til þeirrar ástæðu, að mörgum þyki svo vænt um markið sitt, af því, að það sé erfðamark, eða þeim af einhverjum ástæðum mjög kært, og þeir vilji því ekki skifta á því og öðru marki, þó jafnfallegt sé. Þá er málið orðið að tilfinningamáli; og það er altaf hægt að gera mikið úr tilfinningunum, og við slíkt er altaf erfitt að eiga, því að tilfinningarnar eru vitanlega séreign hvera einstaks manna. Samt hugsa eg, að það sár, sem tilfinningar manna fengi, þótt tekið væri af þeim markið og þeim gefið annað í staðinn, mundi fljótt gróa.

Það getur skeð, að það verði haft á móti frumvarpinu — þótt eg hafi ekki heyrt það áður — að mörkin sé forngripir, sem sé friðhelgir. Mér þætti slæmt, ef sagt væri um mig, að eg leggist á forngripi eins og t. d. fjármörk, fátækratíundarlög o. s. frv., en vona, að deildin lofi þó málinu að komast í nefnd, til þess að það verði rannsakað. Eg hefi talsverða forvitni á að sjá nefndarálit þeirra manna, sem á móti verða. Aftur hefi eg ekki hugsað til, að það verði að lögum ná á þessu þingi, til þess er málið ekki nógu mikið rætt enn. En eg veit, að þetta verður ekki í seinasta sinn, sem málið verður til meðferðar hér á þinginu.

Eg sé nú ekki ástæðu til að taka fleira fram, en leyfi mér að óska eftir, að 5 manna nefnd verði skipuð í málið að þessari umræðu lokinni.