20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1067 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

74. mál, land til stækkunar á kirkjugarðinum í Reykjavík

Einar Arnórsson:

Eg stend að eins upp til þess, að leiðrétta þann misskilning háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.), að það sé brot á 47. gr. stjórnarskrárinnar, að skylda utanþjóðkirkjumenn til þess, að taka þátt í kostnaðinum við stækkun kirkjugarðsins. Það væri ótvírætt brot á 47. gr., sem segir, að enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum sakir trúarbragða sinna, ef farið væri fram á það, að banna utanþjóðkirkjumönnum að jarða meðlimi sína. En þótt sett sé skilyrði fyrir því, að þeir megi það — og þar á meðal að þeir beri nokkurn hluta af kostnaðinum við kaup landsins fyrir kirkjugarðinn — er fullkomlega lögum samkvæmt.

Háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) var að tala um, að hér væri verið að íþyngja þessum mönnum. Hvað sem um það er, þá er skýr heimild þessa í 15. gr. laganna frá 1886 og er ekki annað en annarsstaðar tíðkast, og safnaðarkirkjur verða líka að búa við. En hér stendur nú svo óheppilega á, að dómkirkjan hér í Reykjavík er landssjóðskirkja, og eg get ekki séð, að það eigi að losa þessa menn á nokkurn hátt undan lögmætum gjöldum. Annars er óþarft að fara í nokkrar kappræður um þetta mál