11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Bjarni Jónsson:

Það eru aðeins fjögur atriði, sem eg ætlaði að minnast á.

Að mínu viti var það alveg ótvírætt, hvað seinasta þing vildi, þegar það samþykti stjórnarskrána með því orðalagi, sem kunnugt er. Það ætlaði að fá það ótvíræðlega viðurkent, að það heyrði undir valdsvið Íslendinga, hvar málin yrði borin upp, og taldi það gert með því, að konungur úrskurðaði það. Þetta var öllum vitanlegt, sem á þinginu voru í fyrra, enda mintist eg á það í minni hluta nefndaráliti mínu og var vitnað til þeirra orða minna í upphafi þessa þings, en þá farið rangt með. Orð mín vóru þau, að það væri allra hluta sjálfsagðast, að konungur gerði þetta á ábyrgð Íslandsráðherra eins. Í þessu og í almennum skilningi á eðli þingbundinnar konungsstjórnar, er það fólgið, að ekkert skilyrði mátti setja um uppburð þessara mála fyrir konungi, er íslenzk stjórnarvöld hefði eigi í hendi sér að breyta.

Það gat aldrei verið samkvæmt vilja þingsins 1913, að nokkurt það skilyrði væri sett, sem ekki væri algerlega á valdi Íslandsráðherra og Íslandskonungs. Það datt engum í hug, að nokkur færi fram á að setja slíkt, þar sem vilji þingsins var svo ótvíræður. Því var það, að þegar eg vissi um opna bréfið frá 20. okt. 1913, þá varð eg reiður, af því að mér þótti brotinn vilji alþingis. Eg skrifaði þá 21. nóv. í »Ingólf« harðorða grein og eg sé ekki ástæðu til að taka neitt af henni aftur nú. Annars er ekki ætlun mín að fara að halda ásökunarræðu yfir þeim manni, sem þá fór með völdin. Eg áleit þá og álít enn, að ríkisráði Dana hafi verið óheimilt að gera þessi fyrirmæli og ráðherra Islands óheimilt að skrifa undir opna bréfið. Þessu hélt eg þá fram, og síðan skrifaði annar maður, sem hefir miklu meira álit í landinu en eg, fyrir mitt tilstilli um þetta efni. Hann setti fram sitt álit í Ingólfi og Ísafold, og var skoðun hans samkvæm minni. Um þessa skoðun var svo kosið og kosningin sýndi, að þjóðin vildi ekki að vilji alþingis 1913 væri fyrir borð borinn.

Af því að háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) kastaði hnútum að mér í ræðu sinni, fyrir að eg hefði breytt skoðun á þessu máli síðan í haust, þá skal eg benda honum á, að þessi grein mín stendur í hans eigin blaði og eg veit ekki betur en hún standi þar með hans fulla samþykki.

Í þessari grein er sagt, að það sem gerðist á ríkisráðafundinum væri þannig vaxið, að telja mætti það sem gildandi samning, ef alþingi bygði samþykki sitt á því. Það er nefnilega til alþjóðareglur um það, hvenær þögnin sé talin skuldbindandi fyrir eitthvert ríki. Ef einhverju ríki er tilkynt formlega breyting, sem gerð hefir verið á réttarstöðu þess, þá er þögnin skoðuð sem samþykki. Undir þessa reglu færði eg málið og hélt því fram með réttu, að úr þessu yrði bindandi samningur, ef vér mótmæltum eigi. Samkvæmt þessari skoðun minni ritaði eg greinina í »Ingólf« 21. nóv. 1913.

Þar er því haldið fram, að þingið 1914 eigi að sjálfsögðu að lýsa yfir því:

1) Að hér sé um engan samning að ræða, hverja meðferð sem konungur hefir á málinu,

2) að úrskurði hans um þetta efni megi breyta svo oft sem þörf krefur,

3) að Danir eða ráðgjafar Danakonungs hafi hvorki réttarkröfu né sanngirniskröfu til nokkurs eftirlits með íslenzkri löggjöf,

4) að milli þessa stjórnarskrárákvæðis og sambandssamninga við Dani, sé eigi né skuli vera minsta samband.

Þetta er nú atriðin, og eg vil benda háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) á, að mótmælin frá meiri hluta stjórnarskrárnefndarinnar, inniheldur öll þessi atriði. Þess vegna er það, að eg er því fylgjandi, að sá fyrirvari sé samþ. Þar stendur, að ef svo yrði álitið, að með því, sem gerðist á ríkisráðsfundi 20. oktbr. 1918, hafi uppburður sérmála Íslands fyrir konungi verið lagður undir valdssvið dansks löggjafarvalds eða danskra stjórnarvalda, þá viðurkenni ekki alþingi slíka ráðstöfun skuldbindandi fyrir Ísland.

Í þessu og í síðari málsgrein mótmælanna, eru öll atriðin fólgin, sem eg hélt fram í Ingólfsgrein minni.

Eg skal játa það, að það sem stendur í Ingólfsgreininni, að átelja beri ráðherra Dana fyrir afskiftasemi, þá er það ekki gert í mótmælunum. Það er nóg, að átelja í þingræðu, og það geri eg hér með hjartanlega. Eg tel það ósvífni af þeim gagnvart alþingi og íslenzku löggjafarvaldi, að þeir sé að skifta sér af þessu máli, sem er algerlega íslenzkt löggjafarmál og heyrir eingöngu undir alþingi og Íslandskonung. Eg vona nú, að hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) og aðrir sjái, að eg hefi ekki linast upp að neinu leyti í þessu máli og ekki breytt skoðun minni í neinu. Því að eg álít þessi mótmæli, sem felast í fyrirvaranum, nægilega sterk til þess að vernda rétt Íslands í þessu máli. Það liggur hverjum manni í augum uppi, þegar alþingi lýsir yfir því, að slíkan samning vilji það ekki gera, þá geti ekki um neinn samning verið að ræða. Það er alveg eins og ef maður ætlaði að byggja fyrir mig hús og hefði gert uppkast að samningi við mig um það efni, ef eg neitaði að skrifa undir þetta uppkast, þá væri ekki lengur um neinn samning að ræða. Eg tel því mótmælin nægileg til þess að varðveita réttmæti þeirrar kröfu, að þetta mál sé íslenzkt löggjafarmál og enginn hafi leyfi til að setja nein skilyrði, sem heyri undir aðra en alþingi og þann konung, sem Íslandi stýrir.

Þá kem eg að 4. atriðinu. Ef konungur nú þrátt fyrir mótmæli staðfestir stjórnarskrána, þá hefir hann þar með tekið aftur sitt o. b. 20. okt. 1913 og ákvæði ríkisráðsfundarins, því að þegar H. h. konunginum hefir verið skýrt frá skoðun alþingis í þessu máli, þá væri það að draga Íslendinga á tálar, ef hann samþykti frumvarpið með öðrum skilningi, en Íslendingar leggja í það. En það óttast enginn, að konungur vilji draga Íslendinga á tálar. Eg geri honum að minsta kosti ekki þær getsakir. En ef hann staðfesti frv. með öðrum skilningi, en Íslendingar leggja í það, þá væri hans skilningur markleysa. Enginn lögfræðingur gæti litið öðruvís á það og enginn dómstóll dæmt öðruvís. Eg ætla það nóg mótmæli, að samþykkja fyrirvara meiri hl. nefndarinnar, þó að stjórnarskrárfrumvarpið verði samþykt óbreytt. Með því, að eg hefi nú skýrt þessi 4 atriði, ætla eg að lofa háttv. framsögumanni að standa í stríðinu að öðru leyti. Eg hefi reynt að vera friðsamur og mun ekki taka til máls aftur, þó að eg vilji geyma rétt minn til þess ef á mig verður hallað.