04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

85. mál, brúargerð á Langá

Flutn.m. (Jóhann Eyjólfsson):

Þessi tillaga á þskj. 192 fer fram á, að landsjóður leggi fé til brúargerðar á Langá á Mýrum gegn því, að sýslusjóður Mýrasýslu leggi fram 1/3 af kostnaðinum við það. Er gert ráð fyrir því, að landsjóðsféð verði tekið af upphæð þeirri, sem á gildandi fjárlögum er veitt til vegarins frá Borgarnesi til Stykkishólms. Þessi ráðstöfun er gerð í samráði við landsverkfræðinginn Jón Þorláksson og eftir tillögu hans. Brú þessi var gerð 1897, og lagði landsjóður til hennar 1000 krónur en Mýrasýsla það sem á vantaði, og er óhætt að segja, að hún gerði það af fátækt sinni. Brúin var því af vanefnum gerð, og af þeirri ástæðu ekki eins traustlega og þurft hefði, og þar af leiðandi ekki orðið eins endingargóð og annars hefði orðið. Nú er brúin orðin fúin og hrörleg, og háskagripur fyrir menn og skepnur, og er því óumflýjanlegt, að við hana verði gert hið bráðasta. Vegurinn frá Borgarnesi til Stykkishólms er lagður á landsjóðskostnað en viðhaldið hvílir á sýslunni. Þar sem Langárbrúin er einn hluti af þessum vegi, hefði hún í öndverðu átt að byggjast að öllu leyti á landsjóðs kostnað, en eins og eg tók fram áðan, var lagður fram hluti af byggingarkostnaðinum úr sýslusjóði. Það hefði því ekki verið nema réttlátt, að landsjóður kostaði nú brúargerðina að fullu, eins og aðrar brýr á þessum vegi og á öðrum flutningabrautum, sem hann leggur, en eg vildi samt sem áður ekki koma fram með þá kröfu, þó að réttlát væri. Eg vildi ekki tefla taflinu í þá hættu, að tillagan yrði feld af þeirri ástæðu. Þetta er ekki fjárlagaþing og það hefir komið í ljós, að þingmenn eru því mjög mótstæðir að fé sé eytt úr landsjóði. Eg hefi því lagt til, að tekið sé af því fé, sem þegar hefir verið veitt til Stykkishólmsvegarins og brúin gerð fyrir það, jafnframt því, sem eg ætlast til, að krafist verði 13 af kostnaðinum úr sýslusjóði Mýrasýslu. Eg taldi betra, að sýslusjóðnum blæddi of mikið í bráðina, heldur en að málinu væri teflt í óefni með ofháum kröfum.

Sú tillaga, sem fram er komin frá háttv. þm. Snæf. (S. G.) á þskj. 242, að þó að fé verði veitt til brúargerðarinnar, þá verði samt sem áður ekki dregið af fénu, sem lagt hefir verið til Stykkishólmsvegarins, kom mér mjög á óvart, því að hún verður annaðhvort til þess að fella fjárveitinguna til brúarinnar, eða að nýja fjárveitingu verður að leggja til vegarins. Það sjá allir, að enginn kafli á þessum vegi, sem er ein heild, er eins nauðsynlegur og sjálfsagður og þessi brú. Vegurinn frá Borgarnesi til Stykkishólms er ekki síður fyrir Snæfellinga en Mýramenn og engu síður umfarinn af þeim. Þó að víða sé vondur vegur á þessari leið, þá er þó enginn kafli á honum svo, að mannhætta stafi af honum, nema þessi brú, eins og hún er nú. Mér er það öldungis óskiljanlegt, ef allir, sem um veginn fara, óska ekki eftir brúnni fyrst og fremst, því að bráð aðgerð á henni er svo nauðsynleg, að hún stendur framar öllu öðru og er langsjálfsögðust. Eg hygg, að hér hafi ofmikil hreppapólitík komist að, og getur það þó naumast kallast því nafni, því að það er auðsýnilegt hverjum manni, sem þessu máli er kunnugur, að bæði sýslufélögin, sem hér eiga hlut að, mundu hafa sameiginlegt gagn af þessari ráðstöfun. Hér hefði því átt að vera unnið að í sameiningu af okkur þingmönnum beggja sýslnanna, svo að það yrði ekki dregið út úr höndunum á okkur, að þessi brúargerð kæmist í framkvæmd.