12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

117. mál, kostnaður við starf fánanefndar

Guðmundur Hannesson:

Þegar eg heyrði, að það stæði til að skipa þessa nefnd, þá þótti mér það hyggilega gjört, og eg hefði gjört hið sama í sporum háttv. ráðherra. Eg sé ekki, að það hefði verið framkvæmanlegt að leita álits þingmálafunda um málið eða þjóðarinnar í heild. Hins vegar varð að taka tillit til margra upplýsinga, sem ekki varð aflað á annan hátt, og er því stjórnin ekki ámælisverð fyrir þetta. En annað er lakara, og það var, hve seint nefndin lauk starfi sínu. Æskilegast hefði verið, að það hefði getað orðið svo snemma, að auðvelt hefði verið að tala um málið eftir það út um alt land, og kjósendur þannig fengið tíma til að átta sig á því heima hjá sér. Nú kom skýrsla nefndarinnar svo seint, að fáir höfðu tök á því fyrir þing úti um landið að átta sig neitt nánar á henni, svo að heitið gæti. Eg er ekki að telja eftir það fé, sem til hennar hefir gengið, þó að ýmislegt hefði mátt fara æskilegar en orðið er, og erindisbréf hennar tel eg vera í góðu lagi, en hitt er satt, að hún hefir starfað allmikið fyrir utan sitt eiginlega verkavið. Það er margt í skýrslunni, sem er lítið annað en uppprentun á því, sein þegar var áður skrifað, og sennilega hefði mátt stytta hana um helming án þess að nokkuð verulegt tapaðist við það, enda vóru margir forviða, er þeir sáu þessa stóru bók. Auðvitað er það, að þegar stjórnin skipaði nefndina, þá hefir hún ekki séð það fyrir, hvernig skýrsla hennar mundi verða eða hve lengi mundi standa á henni, svo að um það er ekki að deila við stjórnina. Ef nefndin hefði lokið störfum sínum svo snemma, að tími hefði unnist til að

ræða málið á þingmálafundum, þá hefði eg talið það vel undirbúið, en það þykir mér á bresta, er það varð eigi.