20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

38. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Hákon Kristófersson:

Eins og kunnugt er, lá þetta mál hjer fyrir deildinni í fyrra, og fjekk þá misjafnar undirtektir og var að lokum felt. En jeg álít þetta mál heyra til þeirra mála, er hafa við svo sanngjörn rök að styðjast, að þó því sje bægt frá sanngjörnum framgangi í eitt skifti, þá hafi það svo mikið rjettmæti sjer fólgið, að það rísi óðara upp aftur. Það er nú komið til þessarar deildar aftur, og jeg vona, að hún skilji betur við það en í fyrra.

Þar sem þessu máli er haldið svo fast fram, er það auðsætt, að það er eftir margítrekaðri ósk bæjarbúa. Jeg sje ekki, hví hefta á framgang málsins, eða verða ekki við ósk bæjarbúa í þessu efni. Hjer er ekki farið fram á annað en þá eðlilegu kröfu, að bæjarbúar kjósi sjálfir borgarstjóra sinn. Það sýnist horfa undarlega. við, að samtímis því, að ráðhert er að fjölga kjósendum bæði í þessu bæjarfjelagi og öðrum hjeruðum landsins, að þá skuli þeim sömu mönnum ekki gefinn kostur á að neyta þess rjettar í sem allra flestum tilfellum. Hingað til hefir bæjarstjórnin kosið borgarstjóra, en eftir frv. eiga allir atkvæðisbærir menn að gjöra það. Það er undarlegt, ef allir bæjarbúar hafa ekki vit á að kjósa í þetta embætti eins vel og nokkrir menn. Sje svo, að sú staðhæfing sje á rökum bygð, að kosningin fari betur úr hendi hjá bæjarstjórninni, sem samanstendur einungis af 15 mönnum, heldur en ef allir atkvæðisbærir bæjarmenn kjósa, þá sje jeg ekki betur, en að það sje vantraust á heilbrigðri hugsun bæjarbúa.

Því var haldið fram í fyrra, að frv. gæti leitt til þess, að góður maður fengist. ekki til að taka að sjer þetta embætti, og að bæjarskjórnin stæði betur að vígi að ná í vel hæfan mann, eða leita fyrir sjer, heldur en allur bærinn. En sú litla reynsla, sem fengist hefir síðan í fyrra, bendir ekki til, að skortur verði á hæfum mönnum til að taka stöðuna að sjer.

Jeg verð að halda því fram, að það sje „partiska“, ef deildin hindrar framgang þessa máls. Jeg vona að engum komi í hug, að jeg styðji mál þetta af persónulegum hvötum, heldur gengur mjer það eitt til, að jeg vil að vilji almennings fái að ráða í þessu máli, eins og hann líka ætti að ráða í sem allra flestum málum. Ef að menn vilja í alvöru halda því fram, að bæjarstjórnin sje í öllum tilfellum færari til að velja mann í stöðu þessa, væri það sama sem að segja, að kjósendur í Reykjavík hefðu ekki vitsmuni á við þá 15, sem í bæjarstjórn sitja, til að kjósa sjer borgarstjóra. Ýmsir hjer í deild töluðu móti málinu í fyrra, og þó jeg vilji unna þeim sannmælis og allrar sanngirni — og það vil jeg — þá er það sannast að segja, að jeg man ekki eftir, að nokkrar svo veigamiklar mótbárur væru bornar hjer fram, að þær á nokkurn veg rjettlættu þá meðferð, sem málið varð fyrir í þessari deild. Því var varpað fram, að borgarstjórakosningin mundi verða meira af handahófi og vilji einstakra manna ráða fremur úrslitum hennar, ef allir kjósendur tækju þátt í kosningu borgarstjóra en ef bæjarstjórnin ein kysi hann. Jeg held, að eins vel mætti snúa þessu við og segja, að meiri hætta sje á, að vilji einstaks manns eigi hægra með, að ná tökum á einum 15 manns en á öllum kjósendum Reykjavíkurbæjar. Jeg vona, að hv. deild sýni það rjettlætisverk að lofa þessu máli nú að ganga fram fyrirstöðulaust. Reyndar býst jeg við að einhver hv. dm. muni hreyfa mótmælum, og ætla jeg því ekki að fjölyrða meir um málið að sinni, en bíða þess, að jeg hafi heyrt mótbárur koma fram gegn því.