24.07.1914
Efri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

38. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Karl Finnbogason :

Hv. 6. kgk. þm. fór mörgum orðum um það mikla veður, sem gjört hefði verið út af þessu máli úr öllum áttum. En mjer datt í hug, að þess væri óskandi, að þessi roka hans yrði síðasta stórhríðin — svo jeg nefni ekki annað veður, — sem gjörð verður að því.

Jeg hafði ásett mjer, að greiða atkv. með frv., því mjer virtist það sanngjarnt og rjettmætt í alla staði, að Reykvíkingar fengi að velja sjer borgarstjóra, eins og þeir óskuðu helst.

En þegar hv. þm. (G. B.) sagði, að frjáls og heilbrigð skynsemi dæmdi frv. til falls, og því hlyti það að vera skortur á heilbrigðri skynsemi að fylgja málinu. (Guðmundur Björnsson: Hefi ekki talað það). Jeg skrifaði það eftir hv. þm. (Magnús Pjetursson : Jeg líka). Þá varð mjer hverft við, svo jeg bað mjer hljóðs. Skynsemin mín hlaut víst að vera óheilbrigð. Og þar sem hvorki ræða hv. 6. kgk. (G. B.) nje annara, hafa sannfært mig um, að fella beri frv., verð jeg að láta heimsku mina í ljós og leita freksri lækninga hinni óheilbrigðu skynsemi minni.

Út af ummælum hv. 6. kgk. um hreppsnefndaroddvita, sýslumenn, ráðherra o. s. frv., vil jeg taka það fram, að jeg tel æskilegt, að sem flestir starfsmenn annara sjeu valdir af þeim, sem þeir eiga að starfa fyrir, og þá líka hreppsnefndaroddvitar, sýslumenn og ráðherrar. Og ekki mundu ráðherrar verða ver valdir, ef þeir væru kosnir, eða „á þá bent“ af alþjóð manna.

Okkur kemur víst flestum saman um, að allir þingmenn eigi að vera þjóðkjörnir, en ekki konungkjörnir, og því þá ekki aðrir starfsmenn þjóðfjelagsins? Jeg er svo heimskur, að jeg er því fylgjandi, að almenningur kjósi sem flesta starfsmenn sína, og ráði sem mestu um mál sín yfir höfuð. Af þessari grundvallarskoðun minni leiðir það, að jeg álít að borgarar Reykjavíkur eigi að kjósa borgarstjóra sinn.

Sú mótbára hefir komið fram, að engin vissa sje fyrir því, að almennur vilji kjósenda í Reykjavík sje, að borgarsr fái að kjósa borgarstjórann. Hv. þm. Skagf. (J. B.) hefir nú bent á, að þetta sje ekki rjett, og fært ýmsar sannanir fyrir því, að þetta sje einmitt almennur vilji kjósenda í bænum. Jeg skal bæta því við sannanir hans, að báðir þingmenn Reykvíkinga í neðri deild voru málinu fylgjandi. Nú eru þingmenn þessir sinn úr hvorum flokki, og ætti því atkvæði þeirra að gilda sem atkvæði meiri hlutans í báðum þeim flokkum, sem kusu þá. En auk þeirra voru 8–9 reykvíkskir þingmenn málinu hlyntir í Nd. Hjer í deildinni eru 3 reykvíkskir þm., 2 munu vera málinu mótfallnir, en 1 meðmæltur. Atkvæði þessara hv. þm. ættu ekki að vega minna en atkvæði hverra annara borgara bæjarins. Og undarlegt er það, ef það er tilviljun ein, að svona mikill meiri hluti reykvíkskra þm. er málinu hlyntur. Meiri ástæða er til að álíta, að flokkarnir skiftist svipað utan þings og innan,

Önnur ástæða, sem færð var gegn frv. við 1. umr., er sú, að borgarstjóri sje sjerstaklega starfsmaður bæjarstjórnar, og sje því rjettara að hún velji hann. Nú er bæjarstjórnin til fyrir borgara, en ekki borgarar fyrir bæjarstjórn. Og fyrst bæjarstjórnin á að starfa fyrir borgarana, en borgarstjóri fyrir bæjarstjórnina, þá er hann í raun rjettri starfsmaður borgaranna, svo þeir eiga að velja hann, frekar en bæjarstjórnin. Enda bera borgarar ábyrgð á gjörðum bæjarstjórnar, en ekki hún sjálf, eins og hv. 6. kgk. (G. B.) hjelt ranglega fram. Og suðvitað bera þeir líka ábyrgð á gjörðum borgarstjóra. En það tel jeg rjett, að rjetturinn fylgi ábyrgðinni.

Þá hefir verið bent á, að pólitískur flokkarígur geti haft áhrif á kosningu borgarstjóra. En jeg verð að taka undir það með hv. þm. Skagf (J. B.). að ef pólitískur flokkadráttur hefir áhrif á kosningu borgarstjóra, þá kemst hann ekki síður að við kosningu bæjarfulltrúanna. Og komist hann þar að, kemst hann með því að við kosningu borgarstjórans, ef bæjarstjórnin kýs hann.

Við því verður aldrei gjört, að einhvers konar flokkadrættir geti komist að við kosningu borgarstjórans. Og enda þótt svo verði, sje jeg ekki að það sje hættulegt, ef flokkaskiftingin er á eðlilegum rökum bygð. Meiri hluti verður að ráða hjer sem annarsstaðar, meðan vjer búum við það skipulag, sem nú er, og þekkjum ekki eða getum haft annað betra.

Það getur vel verið, að bæjarstjórnin sje hæfari til að velja borgarstjóra en borgararnir, að því leyti, að hún þekki betur störf hans en þeir. En jeg vil þá benda á, að hún er ekki kosin með það markmið fyrir augum að velja hann. Það væri öðru máli að gegna, ef hún væri kosin til þess beinlínis.

Jeg hefi heyrt, að einstöku þingmenn þykist ekki geta verið með frv. nú, af því að þeir hafi áður verið mótfallnir því. En jeg vil benda þeim á dæmi hv. 6. kgk. þm. Þeim er ekki vandara um að skifta skoðun í málinu en honum, þó það yrði í öfuga átt. Og þar sem jeg hefi einkum heyrt þetta á tveimur prestum, leyfi jeg mjer að benda þeim á, að skrifað stendur, að meiri gleði verði á himnum yfir einum syndugum, sem bætir ráð sitt, en 99 rjettlátum, sem ekki þurfa yfirbótar við. Jeg er viss um að mikil gleði verður í Reykjavík, ef þessir hv. þm. og kennimenn bæta ráð sitt.

Þar sem hv. 6. kgk. þm. (G. B.) talaði um, að þetta frv. ætti uppruna sinn að rekja til útlendra hugsana, vil jeg benda á, að það er ekki til neins að ætla sjer að stemma stigu fyrir þeim. Það tekst ekki, þó lagt yrði aðflutningsbann á þær.